fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Eyjólfur segist víst hafa mátt taka myndir af manninum sem setti Alþingi í uppnám

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 5. mars 2024 16:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, nýtti dagskrárliðinn fundarstjórn forseta á þingfundi í dag til að bera af sér ásakanir um að hann hefði brotið reglur Alþingis, um að myndatökur í þingsalnum séu óheimilar, með því að taka myndir af manni sem truflaði þingfund í gær með því að hrópa að þingmönnum og klifra yfir handrið við þingpallana.

Tilefni þessara orða Eyjólfs er frétt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins um að hann og Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefðu brotið reglur Alþingis, um að myndatökur væru óheimilar í þingsalnum, með því að taka myndir af hátterni mannsins og birta þær á samfélagsmiðlum. Í fréttinni var rætt við Birgi Ármannsson forseta Alþingis um myndatökur þingmannanna. Birgir sagði ástæðu til að árétta reglur um myndatökur í þingsalnum. Þær væru óheimilar en Birgir sagði þó að þegar atvik af þessu tagi komi upp hafi hann meiri áhyggjur af friðhelgi Alþingis og öryggi fólks en myndatökum.

Eyjólfur sagði í ræðu sinni í dag að ekkert stæði í þingsköpum um myndatökur í þingsalnum:

„Það eina sem ég hef fundið um slíkt er í bókinni Háttvirtur þingmaður. Þar stendur: „Ekki má taka myndir í þingsal.“ Það stendur ekki í þingsköpum né annars staðar, ekki mér vitanlega.“

Þingsköp Alþingis eru ákveðin með lögum og þar er ekkert minnst á myndatökur í þingsalnum.

Hafi ekki verið í þingsalnum

Eyjólfur sagði í ræðu sinni að þótt slíkar reglur væru í gildi hefði hann ekki brotið þær vegna þess að hann hefði ekki verið staddur inni í þingsalnum þegar hann tók myndirnar af manninum á þingpöllunum:

„Í fyrsta lagi hvað mig varðar þá stóð ég ekki í þingsalnum. Ég stóð fyrir utan þingsalinn og það sést á ljósmyndinni sem ég tók enda er líka mynd af myndavélinni þarna í horninu fyrir ofan, en ég var ekki inni í þingsalnum ef menn hafa áhuga á að skoða þessar myndir. Ég tel að þetta hafi ekki verið brot þar sem fundarstjóri hafði slitið þingfundi þegar ég tók myndina, og það er þá líka mikilvægt að standa í þingsalnum.“

Eyjólfur telur raunar að það hafi verið mikilvægt að mynda hátterni mannsins og ítrekar fullyrðingar sínar um að hvorki hann né Ásmundur Friðriksson hafi brotið reglur þingsins með myndatökunum:

„Ég tel líka að þetta hafi verið mikilvæg heimild um það brot sem átti sér stað sem var stórfellt, það var brot gegn friðhelgi Alþingis og brot á 100. gr. almennra hegningarlaga. Það eru þungar refsingar við þessu broti, fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að ævilangt fangelsi ef sakir eru miklar. Ég tel því að þessi frétt hafi ekki átt við nein rök að styðjast og hvorki ég né háttvirtur þingmaður Ásmundur Friðriksson höfum á nokkurn hátt brotið reglur þingsins með þessum myndatökum.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast