fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Hvar endar þetta?

Svarthöfði
Mánudaginn 3. júlí 2023 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði getur vart á sér heilum tekið á þessum síðustu og verstu. Ekki er nóg með að veðrið leiki hann sem og aðra íbúa suðvesturhornsins grátt í orðsins fyllstu merkingu heldur er nú ljóst orðið að starfsöryggi bankamanna er verulega ábótavant.

Þvílík ósekja að láta hana Birnu Einars fjúka fyrir það eitt að einhverjir starfsmenn bankans hennar lugu Fjármálaeftirlitið fullt og gaukuðu að sér og sínum bestu vinum nokkrum molum af allsnægtaborði ríkisins! Annað eins hefur nú gerst án þess að allt fari á annan endann. Og vingulshátturinn í honum Finni Árnasyni að geta ekki staðið með sinni manneskju! Veifiskatar er eina orðið sem Svarthöfða kemur í hug þegar honum verður hugsað til hinnar dáðlitlu stjórnar bankans!

Nú fjúka þeir eins og fis í hvirfilbyl blessaðir bankamennirnir sem hafa skilað Íslandsbanka tugum milljarða í gróða á síðustu árum og byggt upp óbilandi samkeppnisforskot bankans á grunni lágra vaxta, heiðarleika og sanngirni gagnvart almenningi. Og fyrir hvað? Tittlingaskít og ekkert annað. Fólk verður nú að hafa fyrir salti í grautinn og geta séð um vini sína. Varla ætlast neinn til að vesalings bankamennirnir lifi af strípuðum launum sínum, eða hvað?

Svarthöfða er það þó huggun harmi gegn að Birna blessunin skuli hafa fengið almennilegan starfslokasamning. Stjórn bankans má nú eiga það að hafa gert vel við hana að því leytinu. Vitaskuld er það rétt hjá Finni stjórnarformanni að innihald samningsins kemur engum við. Hvað eiga eigendur bankans með að heimta upplýsingar um starfslokagreiðslur til Birnu? Eigendurnir eru nú einu sinni aðallega ríkið og lífeyrissjóðirnir! Svarthöfði treystir því að aðrir sem nú eru flæmdir frá æru og störfum fái góðar greiðslur frá bankanum í formi feitra starfslokasamninga. Varla á að setja þetta fólk út á guð og gaddinn!

Svarthöfða er líka mikill léttir að því að ekki skuli öll reynslan og þekkingin sem byggst hefur upp hjá þessum frábæra banka í stjórnartíð Birnu glatast út í buskann í einu vetfangi. Þrátt fyrir vingulsháttinn að hafa látið Birnu fara stóð stjórnin þó í lappirnar og réð hennar nánasta samstarfsmann og staðgengil sem eftirmann. Þannig hefur Finnur og stjórnin tryggt að ekkert breytist hjá Íslandsbanka þrátt fyrir bankastjóraskiptin. Þá verður ekki betur séð en að önnur þau sem stíga inn í stað þeirra sem stíga til hliðar séu innvígð og innmúruð í Birnuliðið. Svarthöfði andar léttar.

En hvar endar þetta? Ef við ætlum að fara að láta stjórnendur fyrirtækja taka pokann sinn hvenær sem eitthvað fer aðeins úrskeiðis í rekstri þeirra, svo sem að lög og reglur séu brotin, verðum við sem samfélag að borga þessu fólki almennileg laun! Birna Einars gerði sér að góðu fimm milljónir á mánuði í fyrra. Árið áður fékk hún 11 milljónir ofan á föst laun fyrir að undirbúa útboð á hlut ríkisins í bankanum. Minna mátti það nú eiginlega ekki vera!

Svarthöfði sér í hendi sér að stjórn bankans hlýtur að hafa samið um ríflega launahækkun til Jóns Guðna Ómarssonar, sem stígur nú inn í fordæmalaust starfsóöryggi. Varla dugar að borga honum minna en 10 milljónir á mánuði. Hann er ekki öfundsverður, blessaður maðurinn.

Já, hvar endar þetta? Á næst að fara að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar? Á kannski að láta fjármálaráðherra sæta ábyrgð vegna þess að pabbi hans er gráðugur? Hvers á Bjarni Ben að gjalda? Svarthöfði hristir hausinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
31.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
25.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!