Í ágúst sýndi skoðanakönnun, sem NBC News gerði, að að 21% aðspurðra töldu mikilvægasta málefni þingkosninganna sé sú hætta sem steðjar að bandarísku lýðræði. Niðurstaðan kom mjög á óvart og var mikið til umfjöllunar í fréttum.
Venjulega segja Bandaríkjamenn að efnahagsmál séu mikilvægasta pólitíska efnið sem þeir hafa áhuga á í aðdraganda kosninga. En að þessu sinni var það sú ógn sem steðjar að lýðræðinu sem átti hug margra.
Könnunin var gerð eftir margra vikna umræður um hvort bandarískt lýðræði sé í hættu. Margir sérfræðingar telja að svo sé og sumir ganga enn lengra og vara við að borgarastyrjöld geti brotist út í náinni framtíð og að hún geti eyðilagt Bandaríkin.
Einn sérfræðingur hefur verið áberandi í umræðunni að sögn Jótlandspóstsins. Það er Barbara F. Walter sem er prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í San Diego í Kaliforníu.
Fyrr á árinu kom bók hennar „How Civil Wars Start“ út en hún hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. Í bókinni segir Walter frá starfi sínu í ráðgjafanefnd hjá leyniþjónustunni CIA. Þar rannsakaði hún hvernig borgarastyrjaldir þróast í löndum eins og Sýrlandi, Írak og Norður-Írlandi.
Fyrir fimm árum fór hún að skoða þróun mála í Bandaríkjunum og sá að í raun var ekki mikill munur á stöðunni þar og í löndunum sem hún rannsakaði þegar hún starfaði fyrir CIA. Þá ákvað hún að vara fólk við.
Í bókinni nefnir hún meðal annars dæmið um áætlun öfgasinnaðra hægrimanna úr röðum Wolverine Watchmen um að ræna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan. Upp komst um áætlunina þegar alríkislögreglan FBI handtók 13 manns vegna málsins. Í kjölfarið fylgdi árás stuðningsmanna Donald Trump á þinghúsið í Washington D.C. í janúar á síðasta ári. Segir Walter að þetta staðfesti kenningu hennar.
Í nýlegu viðtali við hlaðvarp The New Yorker sagði hún að hún hafi séð að sömu hlutir séu að gerast mjög hratt í Bandaríkjunum og sagði að vegna þessara atburða sé ekki lengur hægt að segja að Bandaríkin séu algjört lýðræðisríki.