fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Evrópumálin eru aftur á dagskrá

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 13. mars 2022 15:44

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orð hafa oft margþætta og djúpa merkingu þannig að ógjörningur getur verið að þýða þau með beinum hætti yfir á annað tungumál svo öll möguleg merking skili sér. Þannig er farið með kvenkynsnafnorðið Wende í þýsku sem samkvæmt þýsk-íslenskri orðabók Jóns Ófeigssonar getur þýtt „snúningur, hvarfdepill, tímamót, umskipti“. Wende er eitt þeirra hugtaka sem fanga ástand líðandi stundar — heim á hvörfum. Fall kommúnismans og endursameining álfunnar markaði umskipti af þessu tagi og flest bendir til þess að þessi dægrin séu ný tímamót að eiga sér stað. Við lifum sögulega daga í meira lagi.

Þau bandalög sem voru forverar Evrópusambandsins var komið á fót til að vinna að varanlegum friði í álfunni. En forystumenn þessa friðarbandalags hafa síðasta mánuðinn vanist tungutaki stríðsátaka. Stofnanir Evrópusambandsins sem við höfum lengst af þekkt fyrir verkefni á borð við samningu staðla fyrir símhleðslutæki leita nú leiða til að koma hergögnum í stórum stíl til átakasvæða í Úkraínu. Ótal margt fleira breytist hratt þessi dægrin. Í Svíþjóð og Finnlandi eykst stuðningur við NATO-aðild stórkostlega, Pólverjar og Ungverjar, sem hafa verið að nokkru leyti upp á kant við önnur Evrópusambandsríki, eru af heilum hug með í þeirri órofa samstöðu sem myndast hefur og meira að segja Svisslendingar taka fullan þátt í fjármálalegum refsiaðgerðum gegn Rússum. Og þvert á öll átök um innflytjendur síðastliðna áratugi er úkraínskum flóttamönnum tekið opnum örmum. Hin frjálsa Evrópa er heil og sameinuð.

Í nýjasta hefti Economist er hvarfpunkturinn í Þýskalandi gerður að umtalsefni en ég nefndi hér í grein fyrir um mánuði hvernig stjórnvöld þar í landi lögðust gegn því að nokkur þýsk hergögn (önnur en hjálmar) yrðu send til Úkraínu — en athugum að það var áður en stríð braust út. Innrás Rússa breytti öllu. Blaðamaður Economist notaði meira að segja hugtakið Zeitenwende og sagði að sunnudaginn 27. febrúar sl. hefði nýtt tímaskeið runnið upp þegar Olaf Scholz kanslari kynnti á Sambandsþinginu í Berlín að útgjöld Þjóðverja til varnarmála yrðu aukin að mun svo þau næðu tveggja prósentustiga lágmarki Atlantshafsbandalagsins (sem hlutfall af landsframleiðslu). Að auki var hætt við gasleiðsluna löngu um Eystrasalt — Nord Stream 2. Athugum að í stjórn með Sósíaldemókrötum eru Frjálslyndir demókratar og Græningjar og síðastnefndi flokkurinn er sprottinn upp úr gömlu friðarhreyfingunni. Nú er allt breytt. Þjóðverjar ætla að axla ábyrgð sem forysturíki Evrópu, ekki eingöngu efnahagslega heldur einnig hernaðarlega.

 

Hvarfdepill í íslenskum stjórnmálum

Í könnun Gallup á dögunum voru bornar upp tvær spurningar: annars vegar hvort menn væru hlynntir eða andvígir veru Íslands í Norður-Atlantshafsbandalaginu og hins vegar hver afstaða aðspurðra væri til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að þrír af hverjum fjórum landsmönnum eru hlynntir veru Íslands í NATO en innan við tíundi hluti andvígur. Sú niðurstaða þarf ekki að koma á óvart en tíðindin í könnuninni eru þau að hátt í helmingur er nú hlynntur aðild að Evrópusambandinu en aðeins þriðjungur mótfallinn. Ekki er rétt að draga mjög víðtækar ályktanir af einni könnun en samt sem áður er svo að sjá sem stuðningur við aðild hafi stóraukist undanfarna mánuði. Til samanburðar má benda á könnun MMR frá því í desember sl. þar sem 31% aðspurðra sem afstöðu tóku kváðust hlynnt aðild á meðan 44% voru henni andvíg.

Þetta eru heilmikil tíðindi og án efa hefur hér áhrif það hlutverk í varnar- og öryggismálum álfunnar sem Evrópusambandið hefur tekið að sér í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Stuðningsmenn aðildar hafa vaknað af dvala og einn af öðrum bent á breytta heimsmynd og kannski eru þetta ein mestu tíðindi íslenskra stjórnmála síðustu ára.

 

Engin tæpitunga

Margrét Þórhildur Danadrottning sagði í ávarpi á dögunum að það tæki hana óendanlega sárt að verða vitni að stríði í álfunni og bætti við: „Det fremskridt og det håb, som blomstrede overalt i Europa efter Berlinmurens fald, smuldrer nu for øjnene af os.“ Ópólitískir þjóðhöfðingjar álfunnar tala enga tæpitungu þessi dægrin en Guðni Th. Jóhannesson forseti sagði í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu á sunnudaginn var að með innrásinni hefði verið „stigið yfir mörk sem breyttu stöðunni al­ger­lega. Við getum ekki heiðrað skálkinn enda­laust svo að hann skaði okkur ekki“. Guðni sagði að bregðast þyrfti við af hörku en á sama tíma halda stillingu og leita friðsamlegra lausna og bætti við:

„En það gerum við ekki með því að láta í ljós ein­hvers konar skilning á sjónar­miðum vald­hafa í Moskvu. Það gerum við með því að styðja að fullu hina nýju þjóð­hetju Úkraínu­manna og tákn hugrekkis og sannrar karl­mennsku, getum við kallað það, sem er í Selenskíj Úkraínufor­seta.“

Að líkindum lét Pútín til skarar skríða nú vegna sundurþykkju og sjáanlegra veikleika í samstöðu vestrænna ríkja en með innrásinni tókst honum að sameina Vesturlönd svo um munar. Innrás harðstjórnarveldis í Evrópuríki vinveitt Vesturveldum opnar augu vestrænna þjóða fyrir eigin grunngildum og mikilvægi þess að standa vörð um þau. Guðni forseti lét þau orð falla í áðurnefndu viðtali að við blasti að samstaða vestrænna þjóða hefði verið meiri en rússneska ráðamenn óraði fyrir og sagði svo:

„Og það er vel. Við getum ekki gert margt hér á Íslandi, við erum herlaus og vopnlaus þjóð en við eigum þó í samstarfi við aðrar þjóðir á Vesturlöndum, bæði innan NATO og á vettvangi álfunnar. Við getum lagt okkar af mörkum.“

Forsetinn talar þarna með töluvert kjarnyrtari hætti en forsætisráðherrann sem veigrar sér við að nefna Atlantshafsbandalagið þrátt fyrir að í nýrri könnun Prósents (sem Fréttablaðið sagði frá í vikunni sem leið) kæmi fram að rétt um helmingur stuðningsmanna Vinstri grænna væru hlynntir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu — aðeins 28% á móti. En umræðan á næstu misserum og árum mun ekki bara snúast um NATO. Margvísleg önnur samvinna vestrænna ríkja verður þar ofarlega á baugi — þar með talin möguleg innganga Íslands í Evrópusambandið. Evrópumálin eru komin aftur á dagskrá hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð
EyjanFastir pennar
02.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Þegar afturhaldið andar ofan í hálsmálið

Sigmundur Ernir skrifar: Þegar afturhaldið andar ofan í hálsmálið