fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Viðskiptablaðið hjólar í Kristrúnu eftir að hún sakaði blaðið um kvenfyrirlitningu

Bjarki Sigurðsson
Miðvikudaginn 21. júlí 2021 13:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í seinustu viku sakaði Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og frambjóðandi Samfylkingarinnar, Viðskiptablaðið um kvenfyrirlitningu í sinn garð. Í nafnlausum skoðanapistil var hún kölluð „stjörnuhagfræðingur“ og sagði Kristrún að blaðið ætti að skammast sín.

Þessi nafnlausi skoðanapistill nefnist Óðinn og birtist í prentútgáfu blaðsins. Í blaði þessarar viku ræddi Óðinn málin og hjólaði í Kristrúnu.

„Kristrún tók þessum pistli afar illa líkt og stuðningsmenn hennar og Samfylkingarinnar í netheimum. Eins og Óðinn benti á fer þeim fækkandi stuðningsmönnum Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum, sem er kannski rót þessarar reiði Kristrúnar, en Óðinn getur huggað hana með því að enn er langt til kosninga og því alls ekki víst að sú ákvörðun hennar að taka sæti á lista flokksins hafi verið mistök,“ segir í pistlinum.

Rætt er að það hafi farið mest fyrir brjóstið á stuðningsmönnum Kristrúnar að hún hafi verið kölluð stjörnuhagfræðingur. Óðinn segist þó ekki hafa fundið upp á þessari nafnbót heldur að Kristrún sjálf beri ábyrgð á henni. Hún notaði viðurnefnið í viðtali við Mannlíf.

„Kristrún sjálf vék raunar að þessu í viðbrögðum sínum við pistli Óðins, en það segir sína sögu að í þeim löngu athugasemdum lét hún hins vegar algerlega vera að svara nokkru því sem þar var sagt um efni málsins, umræddan lóðaskort:

„Guð hjálpi konu sem tekur undir jákvæð ummæli, hvað þá talar vel um sjálfa sig! Þvílíkur hrokagikkur, hvernig dettur mér þetta í hug?“

Er Kristrún að segja að einhver annar hafi kallað hana stjörnuhagfræðing og hún sé bara að taka undir þau jákvæðu ummæli? Það á sér a.m.k. ekki stoð í tilvitnuðum orðum úr viðtalinu,“ segir í greininni en Óðinn segir að þegar einhver sé kallaður stjörnulögfræðing sé það sagt í háði.

Óðinn segir að það séu nokkur spil sem fólk getur dregið upp þegar það lendir í ógöngum hvort sem það sé í leik eða starfi.

„Til dæmis að fara í meðferð við áfengissýki, ganga í söfnuðinn eða fá hjálp lækna við brestum í geði. Einnig kynþáttaspilið, kynferðisspilið og kynjaspilið. Oft kann þetta að vera rétt og réttmætt, að um raunverulegt vandamál sé að ræða eða ráðist hafi verið að einhverjum vegna kyns, kynhneigðar eða kynþáttar. En við höfum líka séð menn draga upp þessi spil til þess eins að róa umræðuna eða drepa henni á dreif, skipta um umræðuefni, afla sér nýrra bandamanna, gera úr sér fórnarlamb. Það er mikið hættuspil. Það getur veikt stjórnmálamenn varanlega. Jafnvel endað feril þeirra ef almenningur skynjar að þar er um yfirvarp, fals eða flæming að ræða.“

Óðinn segir að þar hafi Kristrún dregið upp hættuspil því það hafi ekkert verið í pistli Óðins sem tengdist kyni hennar. Í pistlinum er Kristrún sökuð um að rökstyðja ekki eitt einasta orð sem hún sagði.

„Óðinn telur Kristrúnu hafa rangt fyrir sér um eitt stærsta efnahagsmálið þessi misserin, mál sem getur varðað ákaflega marga og haft afar slæmar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Húsnæðisskort sem er tilkominn vegna lóðaskorts, sem er pólitískt vandamál. Kristrún hefur nú gefið sig að stjórnmálum með sérstakri tilvísun til menntunar sinnar og sérþekkingar og hún verður – eins og aðrir stjórnmálamenn – að þola það að fólk taki mark á orðum hennar, leyfi sér jafnvel að draga skoðanir hennar í efa og ætlist til röklegrar umræðu um það.“

„Óðinn treystir því að Sigríður Dögg Auðunsdóttir, hinn skeleggi formaður Blaðamannafélagsins taki til varnar og fordæmi þessa árás á frjálsa fjölmiðlun,“ segir Óðinn að lokum.

Pistilinn má lesa í heild sinni hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt