Miðvikudagur 03.mars 2021
Eyjan

Titringur í Sjálfstæðisflokknum – „Þú ert auðvitað bara með skæting“ – „En þú? Þú leggur mér orð í munn“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 31. janúar 2021 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Friðjón Friðjónsson, almannatengill, tókust á í Silfrinu í dag vegna greinaskrifa þess síðarnefnda á fimmtudag þar sem hann gagnrýndi stöðnum flokksins. Svo virðist sem að titringur sé meðal sjálfstæðismanna vegna skrifanna og hefur Brynjar sagt skrif Friðjóns frekra eiga heima meðal Viðreisnar.

Steintröll og breytingar

Það má segja að titringur sé meðal Sjálfstæðismanna eftir að grein Friðjóns Friðjónssonar, almannatengils, birtist í Morgunblaðinu á fimmtudag.

Fyrirsögn greinarinnar er: „Hvenær hætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera flokkur breytinga?“ og þar gagnrýnir Friðjón, sem situr í miðstjórn flokksins, hugleysi Sjálfstæðisflokks síðustu ár hvað við kemur breytingum. Friðjón segir flokkinn hafa á sér það yfirbragð að vilja ekki að íslenskt samfélag breytist í takt við tímann.

„Ef Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ætl­ar að skil­greina sig sem flokk sem er á móti breyt­ing­um á efna­hags­líf­inu, sjávarútveginum, land­búnaðar­kerf­inu, orku­mál­um, stjórn­ar­skránni og sam­fé­lag­inu sjálfu – þá mun hann daga uppi og verða að steini, eins og tröll í dagrenn­ingu. Aðrir stjórn­mála­flokk­ar taka sér þá for­ystu­hlut­verk og færa sín­ar hug­mynd­ir og sitt stjórn­lyndi í lög og regl­ur“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók greinaskrifunum óstinnt upp og taldi að í henni væri vísað til hans sjálfs. Skrifaði hann því svargrein með fyrirsögninni „Steintröllin“ þar sem hann sagðist eiga erfitt með að átta sig á hvað Friðjóni gengi til með skrifunum. Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki á móti breytingum, en sé ekki flokkur breytinga, breytinganna vegna.

„Hins veg­ar er það vel þekkt að flokka dagi uppi stundi þeir tækifærismennsku og henti­stefnu í stað þess fylgja stefnu sinni og tali fyr­ir þeim gild­um sem flokk­ur­inn stend­ur fyr­ir. Það gætu orðið ör­lög Sjálf­stæðis­flokks­ins ef farið yrði að ráðum Friðjóns R. Friðjóns­son­ar. Þá get­um við velt fyr­ir okk­ur hverj­ir verða steintröll og hverj­ir ekki.“

„Leggur mér orð í munn“

Friðjón og Brynjar mættu í Silfrið í morgun til að ræða málin og áttu þar nokkuð hörð orðaskipti. Þar sagði Brynjar það vont að sjá slík greina skrif, er að ofan greinir, frá manni sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og sagði greinina vatn á myllu andstæðinga flokksins.

„Þetta er bara skot einhvern veginn út sem auðvitað grefur undan samstöðu í flokknum Friðjón, ég held að þetta hafi verið afskaplega óskynsamleg og vanhugsuð grein, því miður, vegna þess að það er ekkert rétt í henni“

Friðjón sagði það bara Brynjar sem tæki þessum skrifum óstinnt upp. Forystumenn flokksins hafi í kjölfarið haft samband við Friðjón og þakkað honum fyrir skrifin og sagt þau góða hvatningu.

„En þú? Þú leggur mér orð í munn og býrð til einhverja nýja sögu um hvað ég er að segja. Þetta er ekki boðleg umræða Brynjar í pólitískir umræðu. Við verðum að geta talað aðeins hærra og talað um hugmyndir en ekki bara um einhvern skæting.“

Brynjar sagði það Friðjón sem væri með skæting.

„Þú talar ekkert um hugmyndir. Þú ert auðvitað bara með skæting um það að við séum ekki í nútímanum, ekki í takt við tímann. Þú segir ekkert í greininn um hverju á að breyta og af hverju. Ekki neitt. Þú bara heldur fram þessu og mér finnst í rauninni bara ótrúlegt, ef rétt er, ef forusta flokksins, sem þessi grein er náttúrulega gagnrýni á, ekki hægt að túlka hana öðruvísi. Bjarni hefur verið formaður í ellefu ár Friðjón. Mér finnst ótrúlegt að hún hafi klappað á bakið á þér og sagt þetta hvatningu fyrir flokkinn.“

Skrattinn úr sauðarleggnum

Friðjón spurði þá á móti hvort Brynjar hafi yfir höfuð lesið greinina.

Brynjar taldi sig hafa lesið greinina og sagði hana vatn á myllu andstæðinga flokksins og þjónaði engum öðrum tilgangi en að gefa andstæðingunum tækifæri.

„Þetta er bara eins og skrattinn úr sauðarleggnum“

Benti Brynjar á að það hafi ekki verið Sjálfstæðismenn sem voru fyrstir til að deila grein Friðjóns heldur Viðreisnarmenn, enda hljómi greinaskrifin eins og Friðjón ætti kannski heima þar.

Friðjón sagði að bragði að flokkurinn þurfi að komast inn á 21. öldina og þar þurfi líka að vera hægt að ræða hlutina eins og þeir séu.

„Við getum ekki lengur verið eins og disfunctional fjölskylda þar sem enginn er tilbúinn að tala um hlutina eins og þeir eru.“

Gaf hann til kynna að samkvæmt Brynjari ættu gagnrýnisraddir innan flokksins ekki að heyra. En því var Brynjar þó ekki sammála.

„Ég er ekki að biðja þig um að þegja neitt, ég er ekki þekktur fyrir að þegja sjálfur, ég er bara að segja að það stendur ekki steinn yfir steini í greininni […]Þegar forystumaður, miðstjórnarmaður, trúnaðarmaður forystunnar kemur með grein að þessu tagi, hún er ekki til gagns Friðjón. Talaðu við okkur fyrst“

Brynjar taldi ljóst að sitt hvað vaki fyrir Friðjóni með skrifunum. Nú styttist í kosningar og að mönnum verði raðað á lista.

„Ég ætla ekki að spá neitt í það en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að Friðjón skrifi ekki svona nema það sé eitthvað agenta“

Brynjar sagðist hafa tekið eftir feikilegri óánægju með greinaskrif Friðjóns. Þess vegna hafi hann skrifað sína eigin grein gegn henni.

„Ég er nefnilega að endurspegla sálina í flokknum“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Mannlíf veldur usla hjá Pírötum – „Flokksbróðir þinn er nauðgari og flóttamaður“

Mannlíf veldur usla hjá Pírötum – „Flokksbróðir þinn er nauðgari og flóttamaður“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólga hjá fjölmiðlum í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi blandar sér í málið – „Ekki nota Olgu og hennar lífsviðurværi sem svipu!“

Ólga hjá fjölmiðlum í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi blandar sér í málið – „Ekki nota Olgu og hennar lífsviðurværi sem svipu!“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir grímunotkun vera frelsissviptingu – „Á ekki að vera hægt að temja heila þjóð eins og hunda“

Segir grímunotkun vera frelsissviptingu – „Á ekki að vera hægt að temja heila þjóð eins og hunda“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Heilbrigðisráðherra krafin um skýrslu vegna flutningar skimunar fyrir krabbamein í leghálsi

Heilbrigðisráðherra krafin um skýrslu vegna flutningar skimunar fyrir krabbamein í leghálsi