fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

ASÍ: Nýfrjálshyggjan er gjaldþrota

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 23. maí 2019 11:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, er stödd í Vínarborg á Evrópuþingi verkalýðsfélaga. Hún hlýddi á Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði í gær sem hélt erindi sem gestur ráðstefnunnar:

„Þetta voru skilaboðin hans“ segir á vef ASÍ:

„Nýfrjálshyggjutilraun síðustu fjörutíu ára hefur beðið skipbrot, er gjaldþrota. Það er kominn tími til að við breytum efnahagskerfinu okkar og hagstjórn til að tryggja velferð allra og takast á við umhverfisógnina sem við stöndum frammi fyrir. Að einblína á hagvöxt gefur ekki góða mynd af árangri þjóða. Hann segir ekki til um framleiðniaukningu vegna tæknibreytinga, sjálfbærni, réttláta dreifingu auðæfa eða velferð almennings. Ójöfnuður í heiminum hefur vaxið hratt. Stærstur hluti hagvaxtar og framleiðniaukningu síðustu áratuga hefur farið til þeirra auðugustu á meðan almenningur í Evrópu og Bandaríkjunum hefur á sumum svæðum jafnvel tekið á sig kjaraskerðingu.

Á vef ASÍ segir einnig:

Í þessu samhengi fjallaði Stiglitz sérstaklega um hnignun Bandaríkjanna og skaðann sem Vúdú efnahagsstefna Ronald Regan stjórnarinnar og þeirra ríkisstjórna sem á eftir fylgdu hefur valdið. Þar sem velferðarkerfið hefur verið holað innan frá, verkalýðshreyfingin verið veikt og kjör og réttindi launafólks skert. Nýjasta dæmið er miklar skattalækkanir til stórfyrirtækja og auðmanna sem Trump stjórnin hefur staðið fyrir. Til skamms tíma hafa þessar aðgerðir aukið hagvöxt. En til framtíðar veikt efnahagskerfið og dregið úr möguleikum Bandaríkjanna sem sjálfbærs efnahagskerfis og samfélags.

Stiglitz tók Norðurlöndin sem dæmi um samfélög sem hafa best tekist á við efnahagskreppuna fyrir áratug síðan og hafa mesta möguleika til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Skýringuna er að finna í grunni samfélagsgerðarinnar. Áherslu á jafnrétti og möguleika allra til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, öflugu velferðarkerfi, virkum vinnumarkaðsaðgerðum og baráttunni gegn atvinnuleysi. Þar sem áhersla er lögð á möguleika til menntunar og fjárfestingu í rannsóknum og þróun.

Þá fjallaði Stiglitz um skemmdarverk Evrópusambandsins gagnvart aðildarríkjum sem urðu hart úti í efnahagskreppunni fyrir áratugi síðan, þar sem áhersla var lögð á niðurskurð opinberra útgjalda, veikingu velferðarkerfisins og launalækkana. Aðgerðir sem leiddi til samdráttar, atvinnuleysis og vaxandi fátæktar og dýpkuðu þannig áhrif kreppunnar.

Hnattvæðingin hefur um margt haft neikvæð áhrif að mati Stiglitz. Stór fjölþjóðafyrirtæki hafa mikið efnahagslegt vald á hnattræna vísu og því hafa líka fylgt pólitísk völd sem er hættuleg blanda eins og dæmin sanna. Þessi fyrirtæki eiga stóran þátt í vaxandi misskiptingu í heiminum. Þau hafa líka komið sér undan því að greiða skatta og leggja sitt að mörkum. Þau hafa spilað á einstaka Evrópulönd sem undirbjóða hvert annað í fyrirtækja- og fjármagnstekjusköttum og grafa þannig undan bæði eigin velferð og annarra landa líka.

Stiglitz fjallaði einnig um ábyrgð fjármálakerfisins á efnahagskreppunni. Hann lagði áherslu á að Evrópa sem heild þyrfti að koma böndum á fjármálakerfið ef takast ætti að koma í veg fyrir annað hrun.
Stiglitz sagðist hafa áhyggjur af framtíðinni nema þjóðir og alþjóðastofnanir bregðist rétt við. Ef fyrirtækjum verður leyft að nýta á sínum forsendum nýja og stöðugt öflugri tækni mun hún leiða til aukinnar misskiptingar. Þar sem lítill hópur mun njóta ávaxtanna meðan stærstur hluti fólks mun sitja eftir með lakari lífskjör og þau sem veikast standa á vinnumarkaði, án atvinnu. Skipulögð veiking stéttarfélaga er ein orsök aukinnar misskiptingar á Vesturlöndum.

Leiðin fram á við samkvæmt Stiglitz er að koma á skatti á fjármagnsflutninga milli landa og skattleggja umhverfismengun, þar sem skattkerfið er notað til að fjármagna öflugt velferðarkerfi og aukinn jöfnuð. Að halda áfram á braut misskiptingar grefur undan lýðræði og í raun tilvist okkar á jörðinni þar sem núverandi kerfi er ófært að taka á umhverfisógninni. Við þurfum að bregðast við núna eins og um stríðsástand væri að ræða, því ógnin er sambærileg.

Að lokum benti Stiglitz á að einstaklingar geta orðið ríkir á því að misnota fjármálamarkaðinn, vinnandi fólk og velferðarkerfi. Samfélög verða hins vegar auðug á því að efla menntun og nýsköpun og tryggja velferð og jöfnuð. Ekkert ríki hefur farið í kreppu vegna sterks velferðarkerfis eða hárra launa. Lykillinn að jöfnuði er sterk verkalýðshreyfing. Samtakamáttur vinnandi fólks sem krefst góðra starfa, sanngjarnra launa og sterkrar velferðar. Skipulögð veiking stéttarfélaga er ein orsök aukinnar misskiptingar á Vesturlöndum. Gegn því verður að bregðast með öllum tiltækum ráðum.
Ræða Stiglitz hafði mikil áhrif á fulltrúa á ETUC þinginu og ljóst að grunnurinn í aðgerðaráætluninni sem er til umfjöllunar á þinginu er í góðum samhljómi við greiningu á stöðunni framtíðarsýninni sem hann setti fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt