fbpx
Mánudagur 21.september 2020
Eyjan

Steinunn Ólína með risa tilkynningu: Hjólar í Moggann – „Morgunblaðið á ríkustu vinina“

Máni Snær Þorláksson
Laugardaginn 7. desember 2019 09:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fjölmiðlakona, tilkynnti í pistli á Facebook-síðu sinni í dag að hún hyggst sækja um stöðu útvarpsstjóra. Hún segir fjölmiðla vera lífsnauðsynlega þar sem lýðræði á undir högg að sækja.

Í pistlinum fer Steinunn yfir mikilvægi ríkisfjölmiðla en hún segir að fjölmiðlar heimsins standi frammi fyrir vanda. „Eignarhald auðæfa er á fárra höndum, lýðræðið hopar fyrir einræði og öfgasjónarmiðum og í ofgnótt upplýsingastreymis er erfitt að sjá hið sanna,“ segir Steinunn. „Til þess þarf mannafla, peninga og ritstjórnarlegt sjálfstæði.“

„Þar sem lýðræði á undir högg að sækja eru fjölmiðlar lífsnauðsynlegir. Staða ríkisfjölmiðla gagnvart einkareknum fjölmiðlum er til umræðu á Íslandi (og annarsstaðar í heiminum reyndar líka) og þar takast á ólík sjónarmið. Umræðan er bæði um rekstur og hugmyndafræði. Hverjar eru skyldur fjölmiðla við almenning, að fræða eða hræða? Er fólk neytendur eða bara njótendur? Skarast þessi hlutverk almennings stundum innan fjölmiðla? Og hver á að borga fyrir upplýsinguna?“

„Morgunblaðið á ríkustu vinina“

Hún segir hlutverk fjölmiðla alltaf vera að keppast um að ná athygli fólks en tilgangur athyglisföngunar sé hins vegar ekki alltaf sá sami. Fjölmiðlar verji ólíka hagsmuni en það sé fásinna að trúa því að allir fjjölmiðlar geti þjónað öllum alltaf. „Nokkrir einkareknir fjölmiðlar reyna að höfða til breiðs hóps fólks með þægilegri dægur- umræðu og dagskrá sem engan stuðar,“ segir Steinunn. „Sumir einkareknir fjölmiðlar taka endurtekið upp hanskann fyrir óvinsæl sjónarmið eða hagsmuni minnihlutahópa. Aðrir reyna að gæta hlutleysis og enn aðrir ganga augljósra erinda hagsmunafla.“

„Skýrasta dæmið á Íslandi er Morgunblaðið, sem hefur fengið mest rekstrarfé allra einkarekinna fjölmiðla. Morgunblaðið er beinlínis gert út af útgerðinni og var lengst af málgagn Sjálfstæðisflokksins en er nú vegna fýlu Davíðs við Bjarna orðið málgagn Miðflokksins. Þetta er ekkert leyndarmál, þetta vita allir. Morgunblaðið á ríkustu vinina, með mestu hagsmunina og í krafti þess getur Morgunblaðið haft mikil áhrif á þær upplýsingar sem landsmönnum berast.

Aðrir einkareknir fjölmiðlar eiga ekki eins ríka vini og þurfa stuðning eins og þann sem menntamálaráðherra talar nú fyrir í frumvarpi sínu að hljóta eigi styrki. Einkareknir fjölmiðlar verða að geta borið sig og þurfa til þess fjárhagslegan stuðning.“

Steinunn segir að Ríkisútvarpið sé ekki fjölmiðill allra landsmanna í allra augum, þó svo að hann eigi að vera það. „Fólk ætti samt að staldra við þegar ráðamenn og háværar raddir slá því fram að tilvist Ríkisútvarpsins sé úrelt, að útvarpsgjaldið ætti ekki að innheimta og að stofnunin ætti ekki að njóta tekna af auglýsingum,“ segir Steinunn í pistlinum en hún vill að RÚV verði á auglýsingamarkaði.. „Auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins, sem bætast ofan á tæplega 17.000 króna útvarpsgjald, eru 20% af þeim heildartekjum sem fjölmiðlar hafa af auglýsingagerð í landinu. Stór hluti þeirra tekna er af sjónvarpsauglýsingum sem myndu ekki færast til annara miðla nema í litlum mæli ef Ríkisútvarpið væri ekki á auglýsingamarkaði. Þá myndi fjöldi hæfileikafólks, hönnuða og leikstjóra missa framfæri sitt og þekking flytjast burt eða glatast. Sjálfsagt ætti að þykja að hafa íslenskt auglýsingaefni, því auglýsingar varðveita sérkenni þjóða og menningu.“

„Þessu eigum við að hafna“

Nú hefur frumvarp Lilju Daggar Alfreðsdóttur menntamálaráðherra verið í umræðunni en frumvarpið snýst um endurskoðun á auglýsingastöðu RÚV á fjölmiðlamarkaði. Steinunn segir að það að Bjarni Ben samþykki frumvarpið segi okkur tvo hluti. „Hann óttast að fjölmiðlar aðrir en þeir sem eru honum þóknanlegir – sjálfstæðir fjölmiðlar eða Ríkisútvarpið – fái vald til að flytja okkur fréttir af hlutlægni þar sem okkar hagsmunir eru í fyrirrúmi,“ segir Steinunn og heldur áfram.

„Hinsvegar bendir þetta til þess að hann sé veraldlega sinnaður gaukur sem skilur ekki mikilvægi menningarverðmæta sem ekki er hægt að kaupa og selja. Bjarni Benediktsson vill ekki bara stjórna ríkisbókhaldinu, heldur upplýsingunni allri. Þessu eigum við að hafna, burt séð frá því hvort okkur finnst Bjarni gúddí gaur eða ekki. Réttara væri að klæða hann í aðsniðinn samfesting sem heftir afskipti hans af Íslandssögunni eins og hún er og verður vonandi varðveitt áfram í fjölþættri dagskrárgerð Ríkisútvarpsins.

Steinunni finnst að í nálægðarsamfélaginu Íslandi sé fréttastofa RÚV alltof kurteis og að hún hafi ekki nægilegt svigrúm til að fylgja málum eftir. „Hvernig stendur á því að það er ekki gengið á eftir aðdróttunum fráfarandi ríkislögreglustjóra, Haraldar Jóhannessonar, um spillingu innan lögreglunnar og í stað þess gerður við hann starfslokasamningur sem flestum óar við vegna þess hróplega óréttlætis sem samningurinn áréttar að viðgangist í íslensku samfélagi? Hvað veit Haraldur um okkar samfélag sem við vitum ekki en þyrftum að vera upplýst um?“

„Á bestu stundum fréttastofunnar verða til þættir eins og Kveikur, sem fletta hulunni af alvarlegu misnotkunar- og spillingarmáli sem varðar okkur öll og alla innviði samfélags okkar. Þessa dagskrárgerð borguðum við meðal annars með skattpeningum okkar og við eigum að vera stolt af og meðtaka að Ríkisútvarpið er á sínum bestu dögum hinn raunverulegi samherji allra landsmanna.“

Hún botnar pistilinn með því að tilkynna að hún æti að sækjja um stöðu útvarpsstjóra. „Vegna þess að mér þykir vænt um Ríkisútvarpið og trúi staðfastlega á mikilvægi þess og læt engan segja mér annað. Ég á enga vildarmenn í ráðandi ríkisstjórn, þekki engan stjórnarmann Ríkisútvarpsins persónulega og hef bókstaflega engu að tapa.“

Pistil Steinunnar í heild sinni má lesa í Facebook-færslunni hér fyrir neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Óvissa með þátttöku lífeyrissjóða í hlutafjárútboði Icelandair

Óvissa með þátttöku lífeyrissjóða í hlutafjárútboði Icelandair
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þessir vilja verða lögreglustjórar á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum

Þessir vilja verða lögreglustjórar á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum