fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Svanhildur um fararskjóta Sjálfstæðisflokksins: „Athugið að klósettsetan er að sjálfsögðu úr safír“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 14. febrúar 2019 11:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frétt Eyjunnar um áætlaðan kostnað skattgreiðenda við hringferð Sjálfstæðisflokksins virðist hafa hitt ferðalangana í hópnum misjafnlega fyrir. Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarkona Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, slær þó á létta strengi á Facebook:

„Og til að fyrirbyggja frekari misskilning finnst mér rétt að nefna að það er alrangt að við þvoum okkur upp úr kampavíni og Sigga sé að einoka upplýsta nuddpottinn með dolby-hljóðkerfinu á meðan Bjarni hangir í gullslegnu kaffistofunni í VIP-rútunni. (En jú, það er samt klósett. Guði sé lof.) P.s. Á meðfylgjandi mynd má sjá afar vel útbúið salerni rútunnar. Athugið að klósettsetan er að sjálfsögðu úr safír.“

Tekið skal fram, til að fyrirbyggja frekari misskilning, að í frétt Eyjunnar var hvergi minnst á kampavín, gullslegna kaffistofu eða klósettsetur, en Svanhildur er sem fyrr með húmorinn á réttum stað.

Kostnaðarmatið ekki nákvæmt

Svanhildur upplýsir að hið gróflega áætlaða kostnaðarmat DV/Eyjunnar sé ekki nákvæmt:

„Ég sé að DV hefur einhverjar aðrar upplýsingar um fjármögnun þessarar ferðar þingflokksins en ég. Í umfjöllun er því slegið upp að Alþingi borgi þetta og hitt og við séum á VIP-rútu og ég veit ekki hvað. Til að allrar sanngirni sé gætt vil ég þó taka það fram að það er rétt að við erum í rútu, við erum í hringferð um landið og það er mjög gaman hjá okkur,“

segir Svanhildur.

Taka skal fram að í frétt Eyjunnar eru þeir varnaglar ítrekað slegnir, að um áætlaðan kostnað sé að ræða, út frá ákveðnum forsendum og því sé ekki um nákvæma vísindalega mælingu að ræða.

Svanhildur tekur fram að hún hafi borgað allar sínar pylsur sjálf, að Sjálfstæðisflokkurinn borgi gistinguna fyrir þingflokkinn og að nokkrir úr hópnum hafi þegið heimagistingu hjá vinum og vandamönnum:

„Hvað kostnaðinn varðar hef ég hef borgað allar mínar pylsur sjálf (og kann sjoppum landsins miklar þakkir fyrir góðan viðurgjörning) eins og allir aðrir sem eru í þessari ferð. Flokkurinn borgar rútu og gistingu (og já, hann fær framlög frá ríkinu sem eru eins og allt annað skattpeningar), en við erum reyndar nokkur í hópnum sem höfum líka verið í heimagistingu, þar sem við eigum góða að víða um landið.“

Kemur niður á sama stað

Athygli vekur að Sjálfstæðisflokkurinn greiði sjálfur fyrir gistingu þingflokksins, þar sem þingmenn eiga rétt á því að fá gistikostnað endurgreiddan beint frá Alþingi. Er Eyjunni bæði ljúft og skylt að koma leiðréttingu Svanhildar hér með á framfæri.

Kostnaðurinn kemur þó niður á sama stað hjá skattgreiðendum, líkt og Svanhildur bendir á, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er að mestu leyti rekinn af fjárframlögum frá ríkinu.

Í því samhengi má rifja upp að Sjálfstæðisflokkurinn skuldaði um 422 milljónir króna miðað við ársuppgjörið 2017, sem sósíalistinn Gunnar Smári Egilsson sagði vera Íslandsmet.

Sjá nánar: Segir Sjálfstæðisflokkinn eiga Íslandsmetið í skuldum:„Bjarni hefur sólundað 550 milljónum til að halda sér í embætti“

Lágkúruleg falsfrétt

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur annan pól í hæðina en Svanhildur. Viðbrögð hans eru nokkuð alvörugefnari. Hann deilir færslu Svanhildar á Facebook og ritar sjálfur:

„Af gefnu tilefni. Þessi umfjöllun er dæmigerð fyrir lágkúrulega fals frétta blaðamennsku. Ekki síst í ljósi þess að fjölmiðillinn vissi betur.“

Eyjan getur ómögulega tekið undir orð Jóns um falsfréttablaðamennsku og að fjölmiðillinn hafi vitað betur. Líkt og tekið er fram í fréttinni er um áætlaðan kostnað að ræða út frá ákveðnum forsendum, sem miðaðar eru við heimildir Eyjunnar frá þingmönnum sem hafa reynslu af slíkum ferðum. Ítrekað er bent á í fréttinni að forsendurnar séu ekki nákvæmar staðreyndir, heldur áætlaðar með slembiaðferðum og útfrá reglum Alþingis er varðar endurgreiðslur.

Þá vill Eyjan taka fram að kostnaður við slíkar ferðir kjörinna fulltrúa á fullt erindi til almennings, þar sem hann greiðir jú fyrir þær á endanum. Og til að gæta sanngirni, þá mun Eyjan leitast við því hjá Alþingi og Sjálfstæðisflokknum, að fá nákvæmar kostnaðartölur úr ferðinni þegar þær liggja fyrir og greina frá þeim á skilmerkilegan hátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt