Tllögur á ársþingi KSÍ voru birtar á vef sambandsins. Miðað við tillögur má búast við nokkuri hörku á milli KSÍ og ÍTF sem eru hagsmunasamtök liða í efstu deildum á Íslandi.
ÍTF leggur það til að aðilar í stjórn KSÍ geti starfað fyrir aðildarfélög sín, en samkvæmt reglum í dag má það ekki.
KSÍ vill hins vegar ganga lengra í reglunum og leggja til að sá aðili sem kemur frá ÍTF inn í stjórn KSÍ starfi ekki fyrir félag.
Úr tillögu ÍTF
Á síðasta ársþingi var samþykkt að breyta lögum KSÍ í þá veru að stjórnarmenn aðildarfélaga eða formenn ráð innan þeirra ráða gætu ekki gefið kost á sér í stjórn KSÍ. Ljóst er að með þeirri ráðstöfun er einfaldlega verið að koma í veg fyrir að aðilar með mikla reynslu innan hreyfingarinnar og aðilar sem eru virkir innan hreyfingarinnar, geta ekki gefið kost á sér til setu í stjórn KSÍ sem þýðir þá að hugsanlega reynslumestu aðilarnir eru ekki kjörgengir til að taka þátt í að stjórna knattspyrnuhreyfingunni á Íslandi Afar lítil hætta er á hagsmunaárekstrum þó svo að einstaka stjórnarmenn aðildarfélaga sitji í stjórn KSÍ þar sem málefni einstakra félaga eru sjaldnast til umræðu eða afgreiðslu þar. Málefni einstakra félaga eru nánast alltaf tekin fyrir í þar til bærum nefndum á vegum sambandsins, s.s. aga – og úrskurðarnefnd, samninga – og félagaskiptanefnd, leyfisnefnd o.s.frv. eða í þar til bærum dómstólum. Það er mikilvægt að sú þekking og sú reynsla sem oftar en ekki býr í stjórnum og ráðum aðildarfélaga sambandsins sé ekki útilokuð frá þátttöku í stjórnun knattspyrnuhreyfingarinnar í heild og því eðlilegt að þessi breyting verði gerð á lögunum.
Tillaga KSÍ:
Tillaga er lögð fram á knattspyrnuþingi 2024 af stjórn KSÍ. Um ræðir breytingartillögu sem tekur mið af athugasemdum frá framkvæmdastjórn ÍSÍ við samþykktar lagabreytingar á ársþingi KSÍ 2023. Í bréfi framkvæmdastjórnar ÍSÍ frá 11. júlí 2023 vegna lagabreytinga á ársþingi KSÍ 2023 kom m.a. eftirfarandi fram:
„Ekki er talið í samræmi við lýðræðislega og góða stjórnarhætti að undanskilja einn aðila í stjórn KSÍ frá hæfisskilyrðum sem allir aðrir í stjórn sambandsins þurfa að gangast undir. Skilyrðin eru sett í þágu góðra stjórnarhátta en með undanþágunni fyrir fulltrúa ÍTF þá má segja að skilyrðin snúist upp í andhverfu sína og fari gegn þeim góðu gildum sem þau eiga að stuðla að. Ekki er sýnileg gild ástæða fyrir því að fulltrúi ÍTF sé undanskilinn þessu hæfisskilyrði. Framkvæmdastjórn ÍSÍ staðfestir lög KSÍ með áorðnum breytingum með fyrirvara um lagfæringu á grein 17.2., skv. ofansögðu[…]“