Jude Bellingham hefur brotið reglur í öllum leikjum Real Madrid í La Liga á þessari leiktíð.
Spænski miðillinn AS segir frá þessu. Bellingham sker alltaf gat aftan á sokka sínum og samkvæmt reglum La Liga er það bannað.
Margir enskir leikmenn hafa gert þetta í nokkurn tíma. Má þar nefna Bukayo Saka og Kyle Walker.
Ástæðan er til að slaka á þrýstingi á kálfana og minnka líkur á því að fá krampa eða meiðast.
Reglurnar herma að ekki megi vera göt á sokkum, treyju eða stuttbuxum.
Það er þó tekið fram að deildin muni ekki taka á þessu, enda kannski ekki mjög alvarlegt mál.
Bellingham hefur annars farið á kostum frá komu sinni til Real Madrid frá Dortmund í sumar.