Fótboltaþjálfarinn og sparkspekingurinn Mikael Nikulásson sagði frá því sem hann hafði heyrt varðandi næsta aðstoðarþjálfara karlaliðs KR í nýjasta þætti Þungavigtarinnar.
Gregg Ryder var í haust ráðinn þjálfari KR en ekkert hefur verið tilkynnt um aðstoðarþjálfara hans.
„Þetta eru ekkert rosalega merkilegar heimildir en ég ætla að kasta því upp. Það á að spara vel í aðstoðarþjálfaranum hjá KR og þjálfari 2. flokks og þjálfari meistaraflokks kvenna verða aðstoðarþjálfarar meistaraflokks karla,“ sagði Mikael.
Um er að ræða þá Pálma Rafn Pálmasonm, þjálfara kvennaliðsins og Gunnar Einarsson, þjálfara 2. flokks karla.
„Ég heyrði þetta úti í bæ. Þetta er leigubílasaga en hún er ekkert ótrúleg. Af hverju ekki að nýta þessa tvo menn í þetta?“ sagði Mikael enn fremur.