Einn knattspyrnumaður og tvær knattspyrnukonur koma til greina sem Íþróttamaður ársins fyrir árið 2023. Listinn er opinberaður fyrir jól líkt og undanfarin ár.
Kjörið á íþróttamanni ársins verður opinberað 4 janúar.
Það er Jóhann Berg Guðmundsson, kantmaður Burnley í ensku úrvalsdeildinni sem er eini knattspyrnumaðurinn sem kemst á listann þetta árið.
Sveindís Jane Jónsdóttir leikmaður Wolfsburg og Glódís Perla Viggósdóttir leikmaður FC Bayern koma einnig til greina.
Sex konur eru á listanum yfir tíu efstu í kjörinu sem Samtök íþróttafréttamanna standa fyrir.
Nokkrir knattspyrnumenn hefðu getað gert tilkall til þess að vera á listanum en má þar nefna Albert Guðmundsson, Hákon Arnar Haraldsson og Hákon Rafn Valdimarsson.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur einnig átt góða spretti á árinu en hún er í dag á láni hjá Bayer Leverkusen í Þýskalandi og hefur spilað vel með landsliðinu.
Tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins 2023 í stafrófsröð
Andrea Kolbeinsdóttir, frjálsíþróttir
Anton Sveinn McKee, sund
Elvar Már Friðriksson, körfubolti
Gísli Þorgeir Kristjánsson, handbolti
Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti
Jóhann Berg Guðmundsson, fótbolti
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund
Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingar
Sveindís Jane Jónsdóttir, fótbolti
Thelma Aðalsteinsdóttir, fimleikar