Morten Gamst Pedersen, fyrrum landsliðsmaður Noregs, er meira en tilbúinn að spila fyrir Wrexham í neðri deildum Englands.
Wrexham tryggði sér sæti í League 2 deildinni á dögunum en liðið er í eigu Ryan Reynolds og Rob McElhenney sem eru báðir frægir leikarar í Hollywood.
Pedersen er nafn sem margir kannast við en hann er 41 árs gamall í dag og leikur fyrir Ranheim í heimalandinu.
Pedersen er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Blackburn frá 2004 til 2013 en hefur undanfarin níu ár leikið í Noregi.
,,Ég myndi elska að fara þangað, af hverju ekki? Kannski ef þið smellið þessu inn á samskiptamiðlana þá getur Ryan Reynolds lesið þetta,“ sagði Pedersen.
,,Við gætum mögulega fundað saman. Í dag spila ég meira fyrir miðju, ég get spilað á miðjunni eða í tíunni.“
,,Ég vil frekar spila ofar á vellinum en get einnig leyst hlutverkið á vængnum.“