Mikel Arteta, stjóri Arsenal, viðurkennir að hans lið sé einfaldlega ekki jafn gott og Englandsmeistararnir í Manchester City.
Man City er enskur meistari eftir tap Arsenal í gær en liðið spilaði við Nottingham Forest og þurfti að sætta sig við 1-0 tap.
Arsenal var um tíma með átta stiga forskot á toppnum en hefur misstigið sig heiftarlega á undanförnum vikum og er nú búið að missa af titlinum.
Arteta sættir sig við það að Man City sé einfaldlega með betra lið í dag og að það muni taka mikið verk að komast á sama stað og þeir.
,,Ég veit að við erum ekki í sama gæðaflokki og þeir en við verðum að finna leið. Þetta er ekki nógu gott,“ sagði Arteta.
,,Þetta mun ekki breytast á bara þremur mánuðum. Við þurfum að komast á sama stað og þeir en þurfum að finna aðrar leiðir til að ná þeim árangri.“