Klara Bjartmarz framkvæmdarstjóri KSÍ er með storminn í fangið en margir hafa kallað eftir afsögn hennar úr starfi. Kemur það í framhaldi af því að Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður og stjórnin fór svo sömu leið í gær.
Knattspyrnusambandið allt er gagnrýnt vegna framkomu þess í garð þolenda ofbeldis, þá er sambandið sakað um að hylma yfir meintum kynferðisbrotum. Klara hefur starfað fyrir KSÍ í 27 ár en hún vill ekki láta af störfum. Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og fyrrum þingkona birti grein á Facebook í kvöld þar sem hún kemur Klöru til varnar.
Klara er líkt og Guðni og stjórn KSÍ sökuð um að segja ekki satt frá í málefnum landsliðsmanna í knattspyrnu og hylma þannig yfir meint brot. Kristrún hefur mál sitt á því að spyra sjálfa sig. „Hver er Klara Bjartmarz ?,“ skrifar Kristrún og segir svo.
„Klara var varaformaður Samtakanna 78 þegar stórir sigrar unnust í þeirri baráttu og hefur leitt og fylgt eftir allri uppbyggingu kvennalandsliðanna í þau 27 ár sem hún hefur starfað hjá KSÍ. Hún hefur barist við ómenningu og karlrembu alla tíð. Hún er feministi, baráttukona fyrir homma, lesbíur og aðra minnihlutahópa og hefur alltaf og mun alltaf beita sér fyrir réttindum og velferð þessara hópa.“
Kristrún segir að Klara hafa unnið magnað starf fyrir konur í heimi fótboltans. „Allir sem til þekkja vita þetta vel og að svona beitir hún sér ávallt innan KSÍ og það hefur hún gert í því máli sem nú er til heitrar umræðu. Að hún skyldi vera gerð að framkvæmdastjóra KSÍ 2015 var stórsigur fyrir kvennaboltann og hún hefur síðan stýrt starfseminni af yfirburðaþekkingu á gangvirki alþjóðlegrar knattspyrnu og íslenskrar og gert það á allan hátt farsællega. “
Kristrún snýr máli sínu næst að hagsmunasamtökum félaga í efstu deildum karla og kvenna, ljóst er að ÍTF reyna nú að ná meiri völdum innan stjórnar KSÍ eftir að Guðni Bergsson formaður sambandsins sagði af sér og stjórnin fylgdi á eftir.
„Íslenskur toppfótbolti er karlaklúbbur sem hefur aldrei svo vitað sé haft áhyggjur eða áhuga á kynbundnu ofbeldi né sérstakan áhuga þátttöku kvenna í fótbolta, heldur hinu að hagsmunir ríkustu félaganna á Íslandi fái meiri forgang. Einungis stærstu félögin fá að vera innanborðs í ÍTF og kvennaknattspyrna er þar jaðarsett,“ segir Kristrún þrátt fyrir að í ÍTF séu einnig formenn félaga í efstu deildum kvenna.
„Eftir því sem peningar hafa aukist í íslenskri knattspyrnu, sérstaklega vegna sjónvarpsréttinda hefur togstreita um valdið yfir peningunum, varpað vissum skugga á íþróttina knattspyrnu sem almannaíþrótt fyrir fólkið í landinu í öllum sínum fjölbreytileika. Nú er það til í dæminu að líta á fótbolta fyrst og fremst sem fjárfestingatækifæri og gera út leikmenn í fjáraflaskyni. Þá hverfur mennskan og fótboltinn breytist í harðan heim þar milljónadrengjum leyfist allt svo lengi sem þeir skora. Fótbolti er ein skemmtilegasta íþrótt sem fundin hefur verið upp. Börn og unglingar geta iðkað hana sér til ómælds félagslegs þroska og eflingar á alla lund,“ skrifar Kristrún.
Kristrún segir að KSÍ hafi unnið magnað starf síðustu ár en að konur hafi vakið sambandið af værum blundi. „KSÍ hefur unnið ótrúlega glæsilegt starf og náð stórkostlegum árangri til gleði og stolts fyrir okkur öll á Íslandi undanfarin ár. Og nú hafa siðvitrar og sterkar konur vakið KSÍ upp með sparki því það verður að stöðva varanlega og alveg ómenningu ofbeldis og eitraðrar karlmennsku þannig að hún eigi ekki lengur nokkurt skjól innan KSÍ né sé nokkurs staðar hægt að misnota ljóma íslensku landsliðanna til obeldis- og myrkraverka.“
Hún segir að KSÍ verði að taka á málum af hörku en að ÍTF sé ekki réttur aðili til þess. „Framvegis taki KSÍ á öllum slikum málum af þeirri fyllstu hörku sem þarf til að binda enda þjáningar þolenda. Útrýming gerendameðvirkni er sú áskorun sem KSÍ verður núna að taka til sín og framkvæma í eitt skipti fyrir öll.“
„Að Íslenskur toppfótbolti grípi tækifæri og nýti krísu til að taka völdin í KSÍ og ná yfirráðum yfir sjónvarpspeningum er ekki vænleg leið til að útrýma eitraðri karlmennsku úr búningsklefum fótboltaheimsins á Íslandi, svo það sé sagt.“