Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, telur að aðilar í ferðaþjónustu hafi fengið enn eitt höggið eftir tíðindi dagsins og sjái margir fram á erfiðar ákvarðanir á næstunni.
„Ég vil nú ekki vera með nein leiðindi, en ég vona að mér leyfist að benda á að tíðindi dagsins þýða í reynd að ferðamennska verður í algjörri mýflugumynd á næstunni hér á landi. Kannski er það markmiðið, að ná að „opna landið“ án þess að hingað flæði inn ferðamenn,“ skrifar Björn á Facebook síðu sína.
Byggir Björn þetta á tíðindum dagsins um hvernig skimunum og sóttvörnum verður hagað á Keflavíkurflugvelli. En afkastageta í sýnatöku verður um 2.000 próf á dag og ferðaþjónusta og flugfélög þurfi að taka mið af því.
„Af hverju segi ég þetta? Jú, þetta er bara einfaldur útreikningur og mat á staðreyndum. Þórólfur sóttvarnarlæknir segir að afkastagetan í sýnatöku séu 2.000 próf á dag og flugfélög og ferðaþjónustan verði að taka mið af því.
Það eru semsé 14 þúsund manns á viku, eitthvað um 60-70 þúsund manns á mánuði. Inni í þessari tölu eru ekki börn en það sem felst í henni eru allir komufarþegar í Leifsstöð, allir sem koma hingað flugleiðis annars staðar t.d. á Reykjavíkurflugvelli, allir farþegar skemmtiferðaskipa og farþegar Norrænu (hún tekur um 1.400 manns). Inni í þessari tölu verða líka þeir Íslendingar sem koma heim.“
Þetta bendi til þess að háannatíminn í ferðaþjónustunni, nú í sumar, verði ekki mikill háannatími.
„Af sjálfu leiðir að háannatíminn fram undan hér á landi verður ekki undirlagður af erlendum ferðamönnum. Svo mikið er ljóst. Líklega eru margir í þeim geira heldur hnípnir þetta kvöldið og horfa fram á erfiðar ákvarðanir.“
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, greindi þó frá því í dag að ef allir farþegar frá vissum svæðum og löndum séu neikvæðir fyrir kórónuveirunni þá gæti það þýtt að farþegar frá slíkum svæðum þurfi framvegis ekki að undirgangast próf. Þannig sé hægt að fjölga ferðamönnum smátt og smátt.
Hins vegar eru aðeins átta flugfélög sem hyggjast fljúga til landsins á næstunni, samanborið við 23 félög á síðasta ári. Því mun líklega vera bið á því að ferðamannastraumurinn rétti úr kútnum.