James Hurst, fyrrum leikmaður ÍBV og Vals hefur verið í gæsluvarðhaldi í Skotlandi frá því í apríl. Hurst hóstaði á tvö lögreglumenn og sagðist vera með kórónuveiruna.
Þessi öflugi varnarmaður var einn besti leikmaður Íslands þegar hann lék með ÍBV árið 2010, hann lék svo með Val 2013 og 2014.
Hurst þótti gríðarlegt efni og lék ungur að árum með West Brom í ensku úrvalsdeildinni. Ferill hans hefur farið hratt niður á við.
BBC segir frá málinu og segir að atvikið hafi átt sér stað í Glasgow í apríl. Hann hefur viðurkennt brot sitt.
Hurst hafði samband við lögregluna og sagðist hafa orðið fyrir ofbeldi. Hurst hafði þá verið eftirlýstur fyrir annað atvik og var handtekinn.
„Hann öskraði þá að hann væri með kórónuveiruna, og sagðist ætla að hósta og hrækja á þá,“ sagði saksóknari í Glasgow.
„Hann byrjaði að hósta á meðan þeir voru að reyna að koma honum í handjárn. Hann öskraði á þá, hann sagði að allir Skotar væru þrælar.“