Búið er að ákveða að blása af tímabilið í Seriu C þar sem Emil Hallfreðsson leikur með Padova í þeirri mynd sem það var. Emil er sterklega orðaður við FH.
Ef marka má fréttir dagsins þá fara Monza, Vicenza og Reggina up um deild. Þau voru í efstu þremur sætunum þegar deildin fór í pásu. Stefnt er á að spila umspil um fjórða sætið sem fer upp. Verið er að útfæra hvernig það verður ákvarðað með formúlu sem verið er að setja saman.
Beðið hefur verið eftir fréttum af þessu en stefnt er að því að klára tímabilið í Seriu A og B en ekki í C-deildinni.
Möguleiki er á að Emil fari til Ítalíu til að taka þátt í umspili en þetta kemur betur í ljós á næstu dögum. Emil og félagar gætu tapað í fyrstu umferð og Emil þar með verið laus allra mála nokkuð fljótt.
Emil gekk í raðir Padova á síðasta ári og hafði átt ágætis spretti með liðinu. Emil er búinn að vera atvinnumaður í 15 ár en hann lék með FH áður en hann hélt út, hann hefur átt frábæran feril með landsliði og félagsliði.