28 ára karlmaður í Manchester hefur verið handtekinn og er grunaður um að hafa brotist inn hjá Riyad Mahrez leikmanni Manchester City.
Innbrotsþjófar létu til skara skríða á heimili Riyad Mahrez í Manchester og stálu meðal annars öllum þeim úrum sem hann hefur safnað að sér. Þar var meðal annars úr frá Richard Mille sem er aðeins fyrir þá ríkustu en úrið sem Mahrez átti kostaði tæpar 40 milljónir.
Einnig voru tvö Rolex úr á heimili Mahrez, þjófarnir tóku einnig 50 þúsund pund í peningum en Mahrez býr í útsýnisíbúð í miðborg Manchester. Þeir tóku einnig skartgripi og treyjur sem Mahrez hefur safnað að sér á ferlinum. Allt það sem þjófarnir tóku er metið á 500 þúsund pund eða 83 milljónir.
Innbrot hjá knattspyrnumönnum á Englandi eru ansi tíð þessa dagana en þjófarnir virðast kortleggja hvar þeir búa og láta svo til skara skríða.