„Við vitum um fleiri fórnarlömb sem áttu það sameiginlegt að hafa misst foreldri sitt og þessi níðingur nýtti sér sorg þeirra til að svala afbrigðilegum fýsnum sínum,“ segir Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins, í gífurlega harðorðri, opinni færslu á Facebook.
Á föstudag var 18 mánaða fangelsisdómur yfir Þórhalli Guðmundssyni, sem vanalega er kallaður Þórhallur miðill, staðfestur í Landsrétti.
Í færslunni ber Inga sakir á Þórhall um fleiri kynferðisbrot en það sem hann var dæmdur fyrir.
Þórhallur var sakfelldur fyrir að hafa fróað tvítugum manni án hans samþykkis á nuddbekk en Þórhallur hefur einnig starfað sem nuddari. Þekktastur er hann fyrir skyggnilýsingafundi og önnur miðilsstörf, meðal annars í gegnum útvarp.
„Er ákærða gefin að sök nauðgun með því að hafa í umrætt sinn fróað brotaþola án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung og þannig misnotað sér það traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá ákærða,“ segir meðal annars í dómnum. Þórhallur var einnig dæmdur til að greiða manninum 800.000 krónur í miskabætur.
„Loksins, loksins hefur það verið viðurkennt opinberlega hvaða mann þessi svo kallaði „miðill“ hefur að geyma,“ segir Inga í færslu sinni.