Margir hafa yndi af spurningakeppnum, bæði að fylgjast með slíkum keppnum og einnig að taka þátt í þeim. Miklar og langvarandi vinsældir Gettu betur og Útsvars sýna þetta glöggt en einnig mikil þátttaka í knæpuspurningakeppnum, pöbb-kviss eins og þær hafa verið nefndar upp úr enskunni. Þá mæta bjórþyrstir áhugamenn á knæpur og svara spurningum með fram ölþambinu. Hitt er þó líklega sjaldgæfara að tekist sé á í slíkum keppnum milli fjölbýlishúsa en það gerðist þó í vikunni þegar íbúar fjölbýlishúsa við Eskihlíð öttu kappi á hverfisbarnum Bus Hostel. Skýringanna kann að vera að leita í því að í annarri þessara blokka sem um var að ræða er búsettur Stefán Pálsson, sagnfræðingur og alræmdur spurninganörd. Stefán spurði enda á Facebook-síðu sinni, vel meðvitaður um skringileika keppninnar: „Hvert sækjum við nördaverðlaun Reykjavíkurborgar?“