
Greinin sem um ræðir hefur vakið talsverða athygli en í henni biðlar hann til stjórnvalda um að veita þessu athygli og bregðast við.
„Það sem er að gerast núna í okkar umdæmi og víðar er ekki lengur hefðbundin glæpastarfsemi. Við stöndum frammi fyrir skipulagðri ógn sem grefur undan stofnunum okkar,“ skrifaði rannsóknardómarinn í bréfinu en Politico fjallar um þetta.
Hann segir að mafíustarfsemi hafi fest rætur og myndað valdakerfi sem ógnar ekki bara lögreglunni heldur einnig dómskerfinu.
Talið er að höfnin í Antwerpen sé eitt helsta flutningshlið ólöglegra fíkniefna inn í Belgíu og Evrópu í heild sinni. Í Brussel, skammt suður af Antwerpen, hefur alvarlegum glæpum sem tengjast eiturlyfjum og átökum glæpagengja fjölgað mjög. Hafa yfir 60 skotárásir verið tilkynntar til lögreglu á árinu.
Í nafnlausa bréfinu tekur dómarinn fram að eiturlyfjaríki einkennist af neðanjarðarhagkerfi, spillingu og ofbeldi. Allt séu þetta skilyrði sem Belgía uppfyllir í dag, að hans mati. Hann bendir á að spilling hafi smogið inn í opinberar stofnanir og hægt sé að panta mannrán á Snapchat.
„Þessi mútustarfsemi síast inn í stofnanir okkar. Mál þau sem ég hef haft yfirumsjón með á undanförnum árum — og ég er aðeins einn af sautján rannsóknardómurum í Antwerpen — hafa leitt til þess að starfsmenn í lykilstöðum hafa verið handteknir,” segir hann og nefnir starfsmenn við höfnina í Antwerpen, tollverði, lögreglumenn og jafnvel fólk innan dómskerfisins.