Stefán Pálsson, varaborgarfulltrúi Vinstri-grænna, segir samþykkt Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, þar sem hann er áheyrnarfulltrúi, á tillögu Götunafnanefndar óheppilega af tvennum ástæðum.
Á fundinum sem fram fór í gær var tekin fyrir tillaga varðandi Fífilsgötu, sem er stubburinn milli Hringbrautar og Gömlu-Hringbrautar, vestan nýja Landspítalasvæðisins.
„Tildrögin eru þau að Örnefnastofnun gerði borgina afturreka með nafnið Fífilsgötu, sem átti að kallast á við nálægar götur á borð við Sóleyjargötu og Fjólugötu. Þetta var fyrirsjáanleg niðurstaða enda augljóslega óheppilegt að hafa Fífilsgötu og Vífilsgötu nánast á sömu þúfunni.“
Segir Stefán að þegar málið kom upp hafi hann stungið upp á því að haldið yrði við blómaheitið og stubburinn kallaður Fífilbrekka, „enda er hún í nokkrum halla og fæli í sér bókmenntavísun í þjóðskáldið (fífilbrekka, gróin grund…).“ Vísar Stefán þar í ljóð Jónasar Hallgrímssonar.
„En niðurstaðan varð aðeins flatneskjulegri. Í staðinn fyrir að velja nýtt götunafn varð niðurstaðan sú að framlengja götuna Hlíðarfót þannig að hún nái yfir þennan stubb líka.“
Þá niðurstöðu telur Stefán óheppilega, eins og áður.
„Það er galli að hafa götu í sitthvoru póstnúmerinu og að auki í sitthvoru kjördæminu. Slíkt hefur valdið vandræðum t.d. varðandi framkvæmd kosninga, sbr. í kosningunum 1999 þar sem álitamál varðandi fáein hús á Framnesvegi, sem lenti í tveimur kjördæmum, voru nærri búin að setja allar kosningarnar í uppnám. Auðvitað má benda á að það eru fleiri götur sem svona hagar til um, en það er ekki þar með sagt að menn eigi að búa til ný tilvik.
Götuheitið er á skjön við staðhætti. Heitið Hlíðarfótur vísar í Öskjuhlíð. Hlíðarendahverfið er í hlíðarfæti Öskjuhlíðar. Þarna er gatan hins vegar látin teygja sig upp eftir rótum Skólavörðuholts og er því á kolröngum stað. Þetta er örnefnaklám og það vill enginn sjá!“
Stefán segir að maður fái víst ekki allt í lífinu og þar sem hann sé svo mikill rólyndismaður „þá var ég ekki með mikinn uppsteit á fundinum og læt nægja að skrifa þessa reiðifærslu í trausti þess að einhver vefmiðillinn semji upp úr henni frétt.“
Margir leggja til annað götunafn
Við því er hér með orðið, enda ljóst að fleiri eru á sömu skoðun og Stefán. Guðni Th. Jóhannesson, fyrrum forseti, leggur til hentugt nafn þar sem götustubburinn er við Landspítalann:
„Þessi gata ætti að heita Batavegur.“
Brynjólfur Þór Guðmundsson, blaðamaður á RÚV, leggur til nafnið Holtsfótur. „Vífilsgata og Fífilsgata eru nónó en Laugarvegur og Lautarvegur í góðu lagi!“
„Þetta hefði líka getað heitið Hjartagátt, leið að sjúkrahúsinu“, leggur annar til.
Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, er sammála Stefáni: „Innilega sammála! Bý sjálf við Hlíðarfót og það er absúrd að hann teygi sig þarna yfir, austan við BSÍ.“
„Fífilbrekka er ljómandi tillaga. Þú hefðir átt að vera með uppsteyt og læti“, segir Páll Valsson, bókaútgefandi og rithöfundur.
„Sem fyrrum póstbílstjóri á Skólavörðuholtinu, þá er ég fúlari yfir þessu en flest skynsamt fólk ætti að vera, segir Alda Vigdís Skaphéðinsdóttir. „Hvað var t.d. að því að framlengja bara Barónsstíginn eða jafnvel Laufásveginn? Húsið sem Kennarasambandið var í var skráð á Laufásvegi svo best sem ég man, þannig að var þetta ekki allt Laufásvegur áður?“
Sigríður Björk Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar, segir Stefán hafa misst af gullnu tækifæri: „Engin bókun í fundargerðinni? Glatað tækifæri til að skjalfesta þessi mótmæli.“