Liam Delap var á leið til Manchester United í sumar áður en félagaskipti hans á Old Trafford urðu að engu á síðustu stundu. Þess í stað samdi þessi 22 ára gamli framherji við Chelsea.
Samkvæmt Daily Mail voru skiptin um 90 prósent frágengin áður en þau klikkuðu. Delap hafði samningsákvæði sem gerði honum kleift að yfirgefa Ipswich fyrir 30 milljónir punda eftir að liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor.
United var í sumar á höttunum eftir nýjum framherja og endaði á því að kaupa Benjamin Sesko frá RB Leipzig fyrir um 74 milljónir punda, til að fylla skarð Rasmus Hojlund sem fór til Napoli.
Delap ákvað á endanum að ganga til liðs við Chelsea og lék hann þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni áður en hann meiddist.
Stór ástæða fyrir því að skiptin til United gengu ekki upp voru að það heillaði Delap meira að spila í Meistaradeildinni. Þá hjálpaði Cole Palmer við að sannfæra hann um að koma til Chelsea, eftir því sem fram kemur í Daily Mail.