Miðað við lýsingar í ákæru sauð upp úr á bensínstöð N1 í Reykjavík þann 14. febrúar 2024. Ákærði í málinu veittist með ofbeldi að öðrum manni innandyra á bensínstöðinni og sló hann ítrekað með krepptum hnefa í andlit og höfuð.
Afleiðingar árásarinnar voru þær að fórnarlambið hlaut brot á kinnbeini og mar og bólgu á kjálka.
Árásarmaðurinn játaði sök fyrir dómi en hann á nokkurn sakaferil að baki.
Lögmaður þess sem fyrir árásinni varð gerði þá kröfu að árásarmanninum yrði gert að greiða fórnarlambinu rúmar fimm milljónir króna í bætur. Dómari mat það hins vegar svo að 808.191 króna í skaða- og miskabætur væru hæfilegar bætur.
Þá var honum gert að greiða 350 þúsund krónur í málskostnað, laun skipaðs verjanda síns, 550 þúsund krónur og 55 þúsund krónur í annan sakarkostnað. Samtals var hann því dæmdur til að greiða rúmar 1.760 þúsund krónur vegna árásarinnar.
Fangelsisdómurinn yfir manninum er skilorðsbundinn til þriggja ára.