Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í körfubolta, var gestur Helga Fannars og Hrafnkels Freys í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Færsla er varðaði fögnuð Stjörnumanna eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta á dögunum hefur vakið athygli. Þar voru menn gagnrýndir fyrir að fagna með vindli og kampavíni.
„Þetta var ótrúleg umræða,“ sagði Helgi í þættinum og Rúnar tók undir. „Að einhver nenni að fara á lyklaborðið og láta þetta skipta sig svona miklu máli er ótrúlegt.“
Hrafnkell segir að svona gagnrýni sé gefið of mikið vægi.
„Haldiði að það sé ekki fullt af svona fólki í löndunum í kringum okkur? Þau eru bara svo mörg að þetta fær enga athygli. Við erum oft að gefa, og ég er að senda pillu á fréttamenn, fólki sem á ekki skilið athygli, athygli.“