Undanfarin misseri hefur borið á töluverðri gagnrýni á áherslu yfirvalda í Reykjavíkurborg á þéttingu byggðar. Þar bar einna hæst umdeilt vöruhús í Breiðholti sem byggt var mjög nálægt fjölbýlishúsi en einnig má nefna til að mynda umdeild þéttingaráform í Grafarvogi og mjög þétta byggð í Gufunesi. Þéttingin hefur verið gagnrýnd meðal annars á þeim forsendum að hún sé svo mikil að hún dragi úr dagsbirtu á heimilum fólks og þrengra verði um græn svæði. Meðal þeirra sem hins vegar lýsa yfir stuðningi við þéttingu byggðar í borginni og raunar á höfuðborgarsvæðinu öllu er sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason en hann viðurkennir þó fúslega að þéttingin eins og hún hefur verið framkvæmd hafi að hluta til misheppnast.
Egill ritar um málið á Facebook og deilir með færslunni grein Söru Bjargar Sigurðardóttur varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Sara Björg skrifar meðal annars:
„Þétting byggðar þéttir fólki saman sem aftur eykur lífsgæði þeirra sem búa saman. Sameignleg svæði laða að sér fleira fólk sem aftur skapar grundvöll fyrir blómlega þjónustu og atvinnulíf. Mannlíf er uppspretta fyrir tækifæri til að skapa hágæða borgarumhverfi sem laðar að sér enn fleira fólk, fjárfestingu, fyrirtæki og stofnanir. Maður er manns gaman og hægt er að vinna gegn meinsemd 21. aldar, einmanaleika, með þéttingu byggðar og fjölbreyttu búsetuformi.“
Egill segir grein varaborgarfulltrúans umhugsunarverða:
„Þétting byggðar á höfuðborgarsvæðinu – og hún fer ekki bara fram í Reykjavík – er nauðsynleg og óhjákvæmileg. Hún er leiðrétting á hinni miklu bílaborg sem hefur byggst upp á suðvesturhorninu – þar sem fólk hefur vanist á að setjast upp í bíl til að sinna einföldustu erindum. Dreifðri borg fylgir mikill kostnaður vegna uppbyggingar, eldri fjárfestingar nýtast illa og hætt við að þær grotni niður.“
Hann bætir við að sumt í þéttingunni hafi sannarlega misheppnast:
„Það hafa verið byggð of stór og groddaleg hús – þau eru of há og nýtur lítillar sólar. Verktaka- og fjárfestingargræðgi setur of mikinn svip á arkitektúrinn á kostnað fagurfræði. En það er auðvitað ekki bara á þéttingarsvæðum að við erum að lifa tíma lélegrar byggingalistar – hana má sjá út um allt. Til dæmis er ein stór breyting sem lítt hefur verið rædd en það eru klæðningar sem eru alls staðar utan á nýjum húsum og eru sjaldnast til prýði þótt efalaust kunni þær að hafa sitt notagildi. En byggðin verður litlausari og grárri fyrir vikið.“
Sitt sýnist hverjum í athugasemdum við færsluna. Sumir taka undir en aðrir andmæla harðlega:
„Egill, fólk vill ekki búa svona. Af hverju á að hafa vit fyrir fólki?“