Einhverjir hafa furðað sig á tímasetningunni á brottrekstri Halldórs Árnasonar úr starfi þjálfara karlaliðs Breiðabliks. Sagan segir að nokkuð sé síðan ákvörðunin var tekin.
Halldór var látinn fara frá Breiðabliki á mánudag í kjölfar dapurs gengis á tímabilinu. Blikar eru löngu úr leik í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og þurfa þá tveggja marka sigur gegn Stjörnunni á útivelli í lokaumferð Bestu deildarinnar til að komast í Evrópukeppni.
Þó árangurinn hafi verið dapur hér heima kom Halldór Blikum í lokakeppni Sambandsdeildarinnar, sem nú stendur yfir. Þá gerði hann liðið að Íslandsmeistara fyrir aðeins tæpu ári síðan.
Tæpar tvær vikur liðu milli tapsins gegn Víkingi um helgina, sem reyndist síðasti leikur Halldórs við stjórnvölinn, og leiksins þar á undan við Fram. Sá leikur vannst. Stefán Pálsson sagnfræðingur ræddi málið í Innkastinu á Fótbolta.net og telur hann að Halldór hefði fengið stígvélið tveimur vikum fyrr ef leikurinn við Fram hefði tapast.
„Þá álpast Blikar til að vinna okkur Framara í Kópavoginum og þá slær þetta mann þannig að stjórnin hafi verið búin að komast að þeirri niðurstöðu að þjálfarinn yrði að fara en þú gætir ekki rekið hann eftir sigurleik,“ sagði Stefán í þættinum.
„Svo tapar hann fyrir Víkingi og þá er ákvörðunin tekin að morgni mánudags, áður en það kemur í ljós hvort þeir séu enn þá í séns (á því að komast í Evrópukeppni). Fram og Breiðablik gerðu jafntefli í kvöld og þeir eru enn með í slagnum. Það er ekkert sem kallar á að þú rekir þjálfarann í hádeginu á mánudegi.“
Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net, benti þá á að miðað við sögurnar sem heyrast hafi Blikar þegar verið búnir að heyra í Ólafi Inga Skúlasyni, sem nú er tekinn við sem þjálfari, fyrir leikinn við Víking. Ýtir það undir orð Stefáns hér ofar.