Skelfilegur atburður kom upp í Brasilíu á dögunum þegar 34 ára gamall maður hneig niður og lést í miðjum íþróttaleik.
Anton Edson dos Santos Sousa, oftast kallaður Pixe, var að keppa í áhugamannadeild í innanhúsknattspyrnu, Futsal, þegar atvikið varð.
Pixe varði víti frá andstæðingi sínum, hljóp til liðsfélaga til að fagna en hneig svo niður fyrir framan hann.
Bráðaliðar mættu fljótt á svæðið og var Pixe fluttur á sjúkrahús, þar sem hann var því miður úrskurðaður látinn.
„Það er með mikilli sorg sem við tilkynnum að við höfum fengið fregnir af andláti Antonio Edson dos Santos Sousa, hæfileikaríkum íþróttamanni sem var sömuleiðis mikill liðsmaður.
Hans verður minnst með hlýju, ekki síst vegna þess hversu einstök manneskja hann var utan vallar,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Futsal-sambands Brasilíu.