Því er velt upp í ensku pressunni hvort Jose Mourinho gæti snúið aftur í ensku úrvalsdeildina og tekið við Nottingham Forest, í kjölfar þess að honum var vikið úr starfi í Tyrklandi í morgun.
Mourinho mistókst að koma Fenerbahce í deildarkeppni Meistaradeildarinnar í gær og var því rekinn, en hann var að hefja sitt annað tímabil sem stjóri liðsins.
Portúgalinn er auðvitað einn besti stjóri sögunnar og spurning hvað hann tekur sér fyrir hendur. Það gæti verið að losna staða hjá Forest, en samband stjórans Nuno Espirito Santo og eiganda félagsins Evangelos Marinakis er sagt standa á brauðfótum.
Nuno hefur gert flotta hluti með Forest og myndi því ekki hverfa á braut fyrir lélegan árangur, heldur málefni utan vallar og samskiptin við eigandann.
Gæti Forest þá skoðað að ráða Mourinho, sem hefur áður stýrt Chelsea, Manchester United og Tottenham í enska boltanum.