Eddie Howe, stjóri Newcastle, virðist ekki allt of sáttur með hegðun Alexander Isak undanfarið, en Svíinn reynir að koma sér burt frá félaginu og til Liverpool.
Isak vill ólmur fara til Englandsmeistaranna eftir frábært gengi sitt hjá Newcastle. Félagið vill þó himinnháa upphæð fyrir leikmanninn. Hefur verið talað um 150 milljónir punda.
Isak hefur æft einn undanfarið og fengið að nota aðstöðu Real Sociedad, síns fyrrum félags.
„Þú þarft að vinna þér inn réttinn til að æfa með okkur. Leikmaðurinn ber ábyrgð og þú þarft að haga þér. Enginn getur hagað sér illa og ætlað sér að æfa aftur með hópnum eins og ekkert hafi í skorist,“ segir Howe.
„Ég myndi auðvitað vilja hafa hann hér en ég veit ekki hvort það verði raunin. En ég er með hausinn hér og tímamismunurinn er mikill svo það er annað fólk að sjá um þessi mál heima,“ segir stjórinn enn fremur, en Newcastle hefur verið á ferðalagi um Asíu á undirbúningstímabilinu.