Gabby Agbonlahor, fyrrum leikmaður Aston Villa, var harðorður í garð stuðningsmanna Arsenal er hann ræddi leik liðsins við PSG í vikunni.
PSG kom sá og sigraði 0-1 á Emirates og er í mjög góðri stöðu fyrir seinni leikinn í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Agbonlahor segir að það hafi verið engin stemning á Emirates og baunaði þá sérstaklega á stóran borða sem stuðningsmenn hengdu upp fyrir leik.
,,Stuðningsmenn Arsenal… Koma svo! Stjórinn er að flytja stóru ræðuna, látið í ykkur heyra.. Þessi borði, ég veit ekki hvað þetta var. Hann var skelfilegur,“ sagði Agbonlahor.
,,Þetta minnti mig á eitthvað sem sjö ára barnið mitt hefði gert fyrir eitthvað verkefni í skólanum. Þetta var vandræðalegt.“
,,Það heyrðist ekkert í þeim. Ég sat þarna og horfði á leikinn og beið eftir því að þeir kæmust í gang. Þetta eru undanúrslit Meistaradeildarinnar.“
,,Þurfa þeir mann á bakvið tjöldin með hátalara sem segir þeim að syngja?“