Ríkharð Óskar Guðnason íþróttafréttamaður á Stöð2 Sport og stjórnandi Þungavigtarinnar segist hafa heimildir fyrir því að Arnar Gunnlaugsson verði næsti landsliðsþjálfari Íslands.
Arnar er í starfi hjá Víkingi og er samningsbundinn félaginu áfram.
„Ég hef heimildir fyrir því að það sé búið að ganga frá þessu munnlega við Arnar Gunnlaugsson, það verður svo bara tilkynnt hvort sem það verði tilkynnt eftir Sambandsdeildina eftir áramót eða fyrr. Samkvæmt mínum heimildum verður hann næsti landsliðsþjálfari,“ sagði Ríkharð í Þungavigtinni í dag.
Vitað er að KSÍ er með uppsagnarákvæði í samningi Age Hareide en liðið mætir Wales í Þjóðadeildinni á morgun, vinnist sigur þar er liðið komið í umspil um sæti í A-deildinni.
Hareide hefur stýrt liðinu í átján mánuði og hefur liðið á köflum sýnt frábæra takta undir hans stjórn. Ríkharð segir að KSÍ sé búið að opna samtalið við Víking um að fá Arnar lausan úr starfi.
Arnar hefur unnið gott starf hjá Víking, liðið hefur í tvígang orðið Íslandsmeistari undir hans stjórn og er liðið nú að gera góða hluti í Sambandsdeildinni.