Arsenal og Tottenham hafa bæði áhuga á Alexander Isak, framherja Newcastle, fyrir sumarið samkvæmt miðlum í Bretlandi.
Isak hefur skorað 14 mörk í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en tvö þeirra komu um helgina í mögnuðum 4-3 sigri á West Ham.
Sænski framherjinn gekk í raðir Newcastle frá Real Sociedad á 60 milljónir punda 2022. Nú er hann að slá í gegn og er því velt upp hvort Newcastle gæti selt hann vegna FFP reglna, en ljóst er að félagið fengi háar fjárhæðir fyrir hann.
Talið er að Arsenal og Tottenham gætu greitt 100 milljónir punda fyrir Isak í sumar, en bæði félög eru í leit að framherja.
Ljóst er að Newcastle nær ekki Meistaradeildarsæti og þeim fjármunum sem því fylgir á þessari leiktíð og því gæti reynst freistandi að selja.
Isak gaf því undir fótinn á dögunum að eitthvað gæti gerst í sumar en Eddie Howe, stjóri Newcastle, segir ekki koma til greina að selja hann.