Það bendir margt til þess að Þorvaldur Örlygsson muni bjóða sig fram til formanns KSÍ. Nafn hans hefur verið í umræðunni undanfarnar vikur.
Þorvaldur hefur samkvæmt heimildum 433.is hringt í mörg félög og skoðað hvor hann hafi stuðning til að ná kjöri sem formaður sambandsins.
Samkvæmt heimildum 433.is hefur Þorvaldur haft samband við félög sem skrifa undir framboð hans og mögulegan stuðning.
Til að geta boðið sig fram sem formaður KSÍ þarf að vera með undirskriftir upp á 12 atkvæði. Þorvaldur hefur nú þegar fengið undirskriftir frá hið minnsta tveimur félögum sem gefa honum átta atkvæði.
Undirskrift félaganna er þó ekki staðfesting á því að þau muni kjósa hann á ársþingi KSÍ í lok febrúar.
Lög KSÍ:
17.3 Sá sem býður sig fram til formanns eða stjórnar skulu hafa skrifleg meðmæli aðildarfélaga sem fara samanlagt með a.m.k. 12 atkvæði á knattspyrnuþingi.
Guðni Bergsson, fyrrum formaður KSÍ hefur boðið sig fram til formanns og sækist eftir stólnum sem Vanda Sigurgeirsdóttir ætlar að yfirgefa.
Vanda Sigurgeirsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum eftir rúm tvö ár í starfinu.
Vignir Már Þormóðsson, fyrrum stjórnarmaður hjá KSÍ og fyrrum formaður knattspyrnudeildar KA er einn þeirra sem íhugar framboð.
Vignir staðfesti á dögunum að hann væri að skoða hlutina en hann hefur ekki enn tekið ákvörðun um framboð.