Craig Bellamy, fyrrum leikmaður Liverpool, fékk ansi slæmar fréttir stuttu eftir úrslitaleik liðsins í Meistaradeildinni árið 2007.
Bellamy hafði spilað með Liverpool í aðeins eitt ár og skoraði sjö deildarmörk í 27 leikjum eftir komu frá Blackburn.
Rafael Benitez, þáverandi stjóri Liverpool, tók ákvörðun um það að losa Bellamy aðeins ári eftir komuna og fékk hann fréttirnar á ansi slæmum tíma – stuttu eftir tap í úrslitaleik þeirra bestu.
Bellamy var farinn til West Ham stuttu seinna en sneri aftur til Liverpool í eitt tímabil árið 2011.
,,Þegar við vorum á heimleið eftir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni þá settist Rafa Benitez við hliðina á mér,“ sagði Bellamy.
,,Hann sagði við mig að þeir væru að skoða aðra leikmenn sem þeir gætu fengið til félagsins. Hann gaf mér leyfi að tala við önnur félög og skoða mína möguleika.“