Enska blaðið Daily Mail segir að frá og með næsta mánuði geti Mason Greenwood framherji Manchester United orðið landsliðsmaður Jamaíka.
Greenwood spilar ekki aftur fyrir United en félagið tók þá ákvörðun í vikunni, tengist það grun um ofbeldi hans í nánu sambandi sem framherjinn hafnar.
Var Greenwood undir rannsókn lögreglu í heilt ár en málið var að lokum fellt niður.
Daily Mail segir ekki útilokað að Greenwood spili aftur fyrir enska landsliðið ef hann sýnir betri hegðun og kemur ferli sínum af stað. Blaðið bendir þó á það að Jamaíka sé kostur.
„Það er áhugi frá Jamaíka,“ segir í grein Daily Mail en Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands stýrir liðinu.
Frá og með næsta mánuði leyfa reglur FIFA það að Greenwood skipti yfir til Jamaíka en þangað á hann ættir að rekja.