Vincent Kompany, stjóri Burnley, er sagður hafa augastað á Albert Sambi Lokonga hjá Arsenal fyrir sumarið.
Burnley undirbýr sig undir endurkomu í ensku úrvalsdeildina eftir að hafa rústað B-deildinni í vetur.
Kompany fór á kostum á sínu fyrsta tímabili í stjórastólnum og hefur skrifað undir nýjan fimm ára samning við félagið. Burnley er sagt ætla að gefa honum gott fjármagn til leikmannakaupa á markaðnum í sumar.
Þar er Lokonga á blaði. Miðjumaðurinn vann með Kompany hjá Anderlecht á sínum tíma og er hann mikill aðdáandi.
Belganum hefur ekki enn tekist að heilla hjá Arsenal og var hann lánaður til Crystal Palace í janúar síðastliðnum.
Þá var Lokonga á nýlegum lista The Times yfir tíu leikmenn sem gætu fengið að fara frá Arsenal í sumar þar sem félagið er að reyna að fjármagna alvöru kaup á markaðnum.
Talið er að Lokonga sé fáanlegur fyrir 15 milljónir punda. Hann gæti orðið leikmaður nýliða Burnley á næstu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.