Íslenski sjúkraþjálfarinn Friðrik Ellert Jónsson er kominn í tímabundið leyfi frá störfum hjá Sjúkraþjálfun Íslands og hefur gengið til liðs við sjúkrateymi enska úrvalsdeildarfélagsins Nottingham Forest.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkraþjálfun Íslands en Friðrik mun starfa hjá Nottingham Forest út yfirstandandi tímabil.
,,Við óskum honum góðs gengis í þessu spennandi verkefni,“ segir í tilkynningu Sjúkraþjálfunar Íslands.
Íslendingar eiga þá fulltrúa í ensku úrvalsdeildinni á nýjan leik, þó ekki í formi leikmanns.
Friðrik er margreyndur sjúkraþjálfari sem hefur meðal annars verið viðloðandi íslensku landsliðin í knattspyrnu.
Þá hefur hann í gegnum tíðina verið íslenskum landsliðsmönnum innan handar hjá félagsliðum þeirra og eru dæmi um að Friðrik hafi verið hjá Everton á meðan að Gylfi Þór Sigurðsson var leikmaður félagsins sem og hjá Burnley þar sem Jóhann Berg Guðmundsson hefur spilað undanfarin ár.