Hér er átt við Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og kemur þetta fram í nýrri bók, The Tragedy of the Elysée, eftir blaðamanninn Olivier Beaumont. Mail Online fjallar um efni bókarinnar sem þykir varpa nýju ljósi á hinn 47 ára gamla forseta.
Vefmiðillinn fjallar um útdrátt úr bókinni þar sem fram kemur að Macron úði á sig svo miklu magni af Dior Eau Sauvage-ilmvatninu að starfsfólk hans finnur lyktina af honum áður en hann kemur inn í herbergið. Er þetta sagður vera liður í einhers konar viðleitni forsetans til að undirstrika völd sín. Er hann alltaf sagður vera með glas af Dior-ilmvatninu með sér.
Sauvage-ilmvatnið er það mest selda í heimi og hefur leikarinn Johnny Depp verið andlit vörumerkisins síðustu ár. Dior er í eigu franska auðkýfingsins Bernard Arnault í gegnum LVMH-veldið en Arnault og Macron eru sagðir nánir.
Í bókinni er haft eftir fyrrverandi samstarfsmanni forsetans að fólk viti af því þegar Macron er í húsinu eða herberginu. Líkir hann þessu við þegar hundar merkja sér svæði. Þá er eiginkona forsetans, Brigitte, einnig sögð nota sama ilmvatnið til að fá þá tilfinningu „að maðurinn hennar sé ekki langt í burtu“ eins og það er orðað.
Þá kemur annað athyglisvert fram í bókinni, en Macron er sagður láta aðstoðarmenn sína geyma kassa sem er stútfullur af forljótum sólgleraugum. Býður hann fólki, gestum til dæmis af vettvangi stjórnmála, að velja sér gleraugu úr kassanum ef það gleymir sínum gleraugum heima þegar gengið er um garðinn við Elysée-höllina.
Gleraugun eru sögð af öllum stærðum og gerðum, sum úr sér gengin en öll eru þau sögð eiga það sameiginlegt að vera ljót og kjánaleg á andlitum fólks. Í bókinni er haft eftir ónafngreindum ráðherra að með þessu vilji Macron líklega undirstrika völd sín.
„Augljóslega þá er þetta ekki gert til að við lítum vel út. Ég velti því jafnvel fyrir mér, undir niðri, hvort hann fái eitthvað út úr því að sjá okkur með þessi gleraugu. Við lítum svo heimskulega út,“ er haft eftir ráðherranum. „Eitt er víst og það er að eftir að þú hefur fengið lánuð gleraugu hjá honum þá gleymirðu þínum ekki aftur.“