
Áttíu ára gömul kona, sem var farþegi á skemmtiferðaskipi, gleymdist á afskekktri eyðieyju út af strönd Ástralíu. Var konan hluti af hóp sem fór í skoðunarferð um Eðlueyju (e. Lizard Island) en varð hún viðskila við hópinn í ferðinni. Þegar konan loks fannst. sólarhring síðar, var hún látin. Áströlsk yfirvöld rannsaka nú hvað olli andláti konunnar og hver ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækisins er.
Eðlueyja er vinsæll viðkomustaður skemmtiferðaskipa en eyjan, sem er óbyggð, er í grennd við Kóralrifið mikla, út fyrir strönd Queensland í Ástralíu. Könnuðurinn James Cook gaf eyjunni heiti sitt árið 1770 þegar hann staldraði þar við og, eins og nafnið gefur til kynna, kom auga á allmargar eðlur.
Konan hafði keypt sér rándýra ferð með skemmtiferðarskipinu The Coral Adventurer en um var að ræða sextíu daga siglingu í kringum gjörvalla Ástralíu. Fyrsti viðkomustaðurinn var Eðlueyja og fór hópurinn í land síðastliðinn laugardag.
Eins og áður segir varð konan viðskila við hópinn og uppgötvaðist hvarf hennar aðeins þegar skipið var lagt af stað í átt frá eyjunni. Var lögreglu gert viðvart og skipinu snúið við en þegar konan loks fannst, um sólarhring síðar, var hún látin.