
Fellibylurinn Melissa hefur sótt í sig veðrið undanfarna daga og í gær var styrkur hans kominn á stig 5 sem er hámarksstyrkur fyrir fellibyl. Veðurfræðingar óttast að fellibylurinn muni valda miklum flóðum og skriðuföllum.
Í frétt Mail Online kemur fram að hótel og gististaðir á Jamaíka undirbúi sig nú fyrir ofsaveðrið og hafa ferðamenn verið duglegir að deila stöðuppfærslum á samfélagsmiðlum.
Einn ferðamaður sagðist til dæmis vera „mjög hræddur“ og „biðja fyrir allri Jamaíka“, og annar segir að margir séu „kvíðnir“ á meðan þeir bíða eftir því að óveðrið skelli á.
Í frétt Mail Online kemur fram að starfsfólk hótela hafi verið á fullu að negla tréplötur fyrir hurðir og glugga, fjarlægja ljós og tæma sundlaugar í þeirri von að minnka þær skemmdir sem óttast er að Melissa gæti valdið.
Veitingastaðir eru víða lokaðir almenningi og þá hafa ferðamenn við strandsvæði verið fluttir af jarðhæðum hótela og upp á efri hæðir.
Rebecca Chatman sagði í viðtali við BBC Radio 4 í morgun að hún „upplifði sig ekki örugga“ á meðan hún reyndi að koma börnum sínum í skjól á hóteli þeirra skammt frá Montego Bay.
„Þetta lítur ekki út eins og Karíbahafið. Það er mjög dimmt að horfa yfir það, það er ógnandi, dularfullt og skrítið suð kemur frá sjóndeildarhringnum — það er óhugnanlegt,“ sagði hún.
Hanna Mcleod, 23 ára móttökustúlka á hóteli í höfuðborginni Kingston, sagði að hún hefði neglt fyrir glugga heima hjá sér þar sem eiginmaður hennar og bróðir eru staddir.
Hún birgði sig upp af niðursoðnu kjöti og makríl og setti kerti og vasaljós víða um húsið.
„Ég sagði þeim bara að halda dyrunum lokuðum,“ sagði hún. „Ég er virkilega áhyggjufull. Þetta er í raun í fyrsta skipti sem ég upplifi svona fellibyl,“ sagði hún við BBC.
Áhyggjur manna beinast einnig að alþjóðaflugvellinum á Jamaíka en hann stendur aðeins þrjá metra yfir sjávarmáli. Er óttast að flugvöllurinn geti farið á kaf ef allt fer á versta veg.
Thomas Moore, vísindafréttaritari BBC, segir að þetta gæti haft þau áhrif að ekki verði hægt að opna flugvöllinn jafnvel þó óveðrið sé gengið niður. Það geti haft afdrifaríkar afleiðingar ef senda þarf hjálpargögn eða hjálparlið til eyjarinnar.
Melissa hefur farið tiltölulega hægt yfir sem aftur eykur líkurnar á langvarandi úrhelli og eyðileggingu.