
Samkvæmt fréttum franskra miðla sem vefritið People vísar til, þar á meðal France Bleu, BFM TV og Ouest-France, tókst konunni, sem er fertug, að sleppa úr haldi þann 14. október síðastliðinn og gera nágranna viðvart. Var konan þá með einkenni ofkælingar og greinilega illa á sig komin.
Antoine Leroy, saksóknari í Nantes, segir að konan hafi flutt inn til konu á sextugsaldri fyrir nokkrum árum sem starfaði sem aðstoðarmaður í hjúkrun. Þær voru upphaflega herbergisfélagar, en aðstæður breyttust þegar kærasti konunnar, 82 ára gamall maður, flutti inn.
„Hún bjó fyrst með konunni inni á heimilinu,“ sagði Leroy í samtali við France Bleu og bætir við að konan hafi síðar verið látin sofa í tjaldi úti í garði áður en hún var lokuð inni í bílskúr þegar maðurinn flutti inn.
Saksóknarinn segir að konan hafi þurft að gera sér að góðu að sofa á strandstól í köldum bílskúrnum og nota pott og plastpoka sem salerni. Hún hafi fengið lítið að borða og stundum verið neydd til að borða hafragraut sem blandaður var uppþvottasápu. Samhliða þessu hafi parið tæmt bankareikning hennar og ráðstafað peningunum í eigin þágu.
Þegar konan loks náði að flýja þann 14. október var maðurinn sagður hafa verið upptekinn við að horfa á sjónvarpið. Hún hljóp þá yfir til nágrannans, sem tók hana inn og hringdi á neyðarlínuna.
Lögregla fann ýmislegt á vettvangi sem staðfesti framburð konunnar um að henni hafi verið haldið í hryllingshúsinu gegn vilja sínum. Lögreglan handtók parið og eru þau grunuð um mannrán með pyntingum og fjársvik gagnvart manneskju í viðkvæmri stöðu.
Saksóknarinn sagði að parið hefði viðurkennt að konan hefði búið við „erfiðar aðstæður“ en reynt að gera lítið úr alvarleika málsins. Rannsókn málsins heldur áfram og má búast við frekari ákærum þegar sönnunargögn liggja fyrir, segir saksóknarinn Antoine Leroy.