Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, hefur ákveðið að slaufa ritskoðunarstefnu Facebook en þessi ákvörðun er mjög umdeild. Hefur Zuckerberg meðal annars verið sakaður um að selja sál sína til að geðjast verðandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump, og hans hægri hönd, Elon Musk.
Þessi ákvörðun felur meðal annars í sér að Facebook hefur slaufað samstarfi við fyrirtæki sem helguðu sig því að sannreyna fréttir og upplýsingar á þessum vinsæla samfélagsmiðli til að stemma stigu við upplýsingaóreiðu og falsfréttum.
Þegar Zuckerberg tilkynnti þessa ákvörðun sagði hann að það felist viss ritskoðun í því að sannreyna færslur og eins ætli fyrirtækið að slaufa algrímum sem hafa til þessa séð um að ritskoða efni sem er birt á vefnum. Zuckerberg segir að kerfið hafi hvort eð er verið ófullkomið sem hafi leitt til þess að mikið af færslum, sem ekki brutu gegn reglum miðilsins, voru ritskoðaðar og notendur beittir viðurlögum að ósekju.
Þeir aðilar sem sáu um að sannreyna færslur hafa þó bent á að það sé ekki ritskoðun að krefjast þess að ekki sé verið að dreifa lygum. Þeir sem sannreyna staðreyndir séu ekki að ritskoða. Það birtast óteljandi færslur á miðlinum á degi hverjum og fæstar þeirra voru sannreyndar. Það voru einkum færslur frá opinberum manneskjum sem sættu slíkri skoðun og eftir atvikum voru þær merktar sem falsfréttir og algríminu gert að draga úr dreifingu þeirra. Eina efnið sem var bókstaflega fjarlægt af vefnum var efni sem Facebook túlkaði sem brot gegn reglum á borð við klám, barnaníðsefni eða hvatningu til hryðjuverka.
New York Post greinir nú frá því að Zuckerberg hafi áttað sig á því hvað kerfið var ófullkomið þegar hann birti sjálfur færslu á Facebook þar sem hann greindi frá því að hafa slasast á MMA-móti. Hann meiddist á hné og þurfti að gangast undir aðgerð. Með færslunni birti hann mynd af sér á sjúkrahúsinu sem var tekin eftir aðgerðina.
Zuckerberg tók eftir því að færsla hans vakti ekki mikil viðbrögð. Hann fór að grafast fyrir um málið og komst að því að starfsmenn Facebook höfðu átt við algrímið til að takmarka dreifingu á efni sem varðar heilsuna, til að sporna við dreifingu falskra upplýsinga. Lét forstjórinn þá kanna hvort stefna Facebook hefði gengið of langt.
Facebook ætlar nú að notast við svokallaðar samfélagsathugasemdir, svipað og er notað á miðlinum X, til að vekja athygli á falsfréttum.
Aðspurður hvort Zuckerberg sé með þessu að bregðast við hótunum frá Trump svaraði verðandi forsetinn að það væri líklegt.