Rannsóknin byggist á gögnum um rúmlega 47.000 konur. Meginniðurstaða hennar er að líkurnar á að eldast á heilbrigðan hátt eru 13% meiri hjá konunum sem drukku mest kaffi, um sjö bolla á dag, miðað við þær sem drukku minnst kaffi, um tvo bolla á dag). The New York Times skýrir frá þessu.
Það má segja að lengi hafi verið beðið eftir þessum niðurstöðum því rannsóknin hófst á áttunda áratugnum. Á nokkurra ára fresti svöruðu konurnar spurningum um mataræðið þeirra, sérstaklega neyslu á tei, kaffi og kóladrykkjum.
2016 var rannsakað hversu margar af konunum væru enn á lífi og hvort þær féllu undir skilgreiningu þeirra á „heilbrigðri öldrun“. Það átti við um rétt rúmlega 3700 þeirra. Þær voru sjötugar eða eldri og voru í góðu líkamlegu formi og andleg heilsa þeirra var einnig góð. Þær glímdu ekki við minnistap og voru lausar við 11 króníska sjúkdóma, þar á meðal krabbamein, sykursýki 2 og hjartasjúkdóma.
Vísindamennirnir fundu tengsl á milli koffínneyslu kvennanna, þegar þær voru 45 til 60 ára, og hversu líklegt var að þær myndu eldast á heilbrigðan hátt. Eins og fyrr segir var niðurstaðan að þær voru 13% líklegri til að eldast betur ef þær drukku um sjö kaffibolla á dag miðað við þær sem drukku tvo bolla. Tekið var tillit til annarra þátta, sem geta haft áhrif á öldrunarferlið, til dæmis hreyfingar og reykinga.
Engin tengsl fundust á milli heilbrigðs öldrunarferlis og neyslu á tei eða koffínlausu kaffi.