Hvunndagshetjur eru sem betur fer margar og það má svo sannarlega segja að hópur apa komist í þennan góða hóp. Þeir komu í veg fyrir að sex ára stúlku væri nauðgað á Indlandi..
Times of India skýrir frá þessu og segir að stúlkan hafi sagt fjölskyldu sinni frá því að reynt hefði verið að nauðga henni og að apahópur hefði komið henni til bjargar.
Faðir stúlkunnar sagði að hún hafi verið að leik fyrir utan heimili sitt þegar karlmaður hafi tekið hana og farið með hana í yfirgefið hús. Þar afklæddi hann hana og reyndi að nauðga henni en þá kom apahópurinn til sögunnar og réðst af miklum krafti á manninn og hrakti hann á flótta.
The Times of India segir að á upptökum úr eftirlitsmyndavélum sjáist maðurinn ganga með stúlkuna eftir þröngri götu. Hann hótaði stúlkunni að faðir hennar yrði drepinn.
„Dóttir mín væri dáin núna ef aparnir hefðu ekki gripið inn í,“ sagði faðirinn.