Nú hafa vísindamenn við Alabama háskólann í Birmingham í Bandaríkjunum komist að því að það skiptir máli á hvaða tíma dagsins fólk borðar ef það er að reyna að léttast.
Þeir komust að því að fólk sem fylgir ströngu mataræði léttist meira en fólk í samanburðarhópnum ef það borðaði á ákveðnum tímum dagsins. Var fylgst með fólkinu í 14 vikur.
Ekki skemmdi fyrir að blóðþrýstingur fólksins lækkaði og það voru meiri líkur á að skap þess væri betra.
En það er hugsanlega ákveðinn ókostur á því að borða á ákveðnum tímum dagsins því þátttakendurnir þurftu að borða „kvöldmatinn“ klukkan 15.
Rannsóknin beindist nefnilega að hluta að því að rannsaka áhrif þess að fólk borði innan ákveðins tímaramma, til dæmis frá 12 til 20 og ekkert þess utan. Það hefur oft verið rannsakað hvort þessi aðferð komi að gagni við að léttast en niðurstöðurnar hafa verið misvísandi.
En nú rannsökuðu vísindamennirnir hvort það að flytja þennan tímaramma til og hafa hann á milli 7 og 15 hefði áhrif. Þeir segja að líkaminn og efnaskipti hans séu betur í stakk búin til að takast á við mat, snemma á daginn og það geti aukið fitubrennsluna enn meira.
Um 90 of feitir fullorðnir voru fengnir til að taka þátt í rannsókninni. Helmingurinn fylgdi tímaramma vísindamannanna en hinn ekki. Rannsóknin stóð yfir í 14 vikur og borðuðu báðir hóparnir hollan mat og hreyfðu sig í 150 mínútur á viku.
Þeir sem fylgdu tímaramma vísindamannanna léttust að meðaltali um 6,3 kg en fólkið í hinum hópunum léttist að meðaltali um 4 kg.