Medvedev er í dag næstráðandi í þjóðaröryggisráði Rússlands en hann er óhress með yfirlýsingar David Lammy, utanríkisráðherra Bretlands, um stuðning Breta við Úkraínu.
Medvedev birti færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann vísaði í orð Lammy um langtímastuðning Bretlands við Úkraínu.
Í færslunni sagði Medvedev:
„Utanríkisráðherra Bretlands David Lammy hefur heitið Úkraínu stuðningi næstu hundrað árin. 1) Hann er að ljúga. 2) Hin svokallaða Úkraína mun ekki endast í fjórðung þessa tíma. 3) Eyjan sem kallast Bretland mun sökkva á næstu árum. Okkar ofurljóðfráu eldflaugar munu hjálpa ef þess gerist nauðsyn.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áróður af þessu tagi frá Rússum beinist að Bretlandi. Árið 2022, nokkrum mánuðum eftir innrásina í Úkraínu, hótaði Dmitry Kiselyov, bandamaður Pútíns, því að Rússar myndu senda kjarnorkusprengju á Bretland. Henni yrði skotið neðansjávar með þeim afleiðingum að geislavirk flóðbylgja myndi flæða yfir landið.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur hótað því að þriðja heimsstyrjöldin muni brjótast út ef Bretland eða aðrar bandaþjóðir Úkraínu heimila notkun þeirra á langdraugum eldflaugum frá aðildarríkjum NATO á rússneskri grund.