Málið snýst um dreifingu nektarmynda sem eru falsaðar. Þær eru gerðar með aðstoð gervigreindar, svokallað „deepfake-klám“.
Dreifing á slíkum myndum og myndböndum hefur verið mikil um alla Suður-Kóreu að undanförnu í gegnum Telegram. Mörg hundruð manns hafa orðið fórnarlömb mynddreifinga af þessu tagi en þá er saklausum myndum af þeim breytt í klám.
Yonhap-fréttastofan segir að nú hafi suðurkóreski herinn ákveðið að fjarlægja myndir af hermönnum og starfsfólki hersins af heimasíðu sinni og innri samskiptavefum. Talsmaður varnarmálaráðuneytisins sagði þetta gert því það sé hugsanlega hægt að misnota myndirnar til að búa til klám með aðstoð gervigreindar.
Ráðuneytið skýrði frá því á mánudaginn að 24 hermenn og starfsfólk hersins hefði nú þegar orðið fyrir barðinu á slíkum fölsunum.